143. löggjafarþing — 94. fundur,  9. apr. 2014.

fjögurra ára samgönguáætlun 2013--2016.

495. mál
[19:20]
Horfa

Edward H. Huijbens (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Haraldi Einarssyni fyrir stuðninginn og spurningarnar. Hjólaleiðirnar þurfa einmitt að vera sér, það segja mér allir sem eitthvað þekkja til hjólreiða, þær geta ekki blandast mikið innan um annað. En það er líka forsenda uppbyggingarinnar eins og ég var að nefna að þessar hjólaleiðir þurfa ekkert endilega að vera í samhengi við þjóðvegi eða aðra innviði. Þær þurfa fyrst og fremst að leggjast eftir því sem er áhugavert til upplifunar, áhugavert til hjólreiða, það gæti verið áherslan.

Það sem ég tel svo mikilvægt og vildi hafa sem áherslu í samgönguáætlun t.d. er að þessi hugmynd og leiðir eins og hjólaleiðir séu lagðar til jafns við aðrar leiðir, aðra möguleika. Við komum okkur aðeins út úr því hugarfari að hugsa um bílinn fyrst og hugsum um þetta allt sem jafngilda möguleika til samgangna sem megi hugsa um. Þetta er svolítil hugsanabreyting sem ég er að reyna að fá fram og verður svolítið erfið vegna þess að menn taka þessu yfirleitt ekkert voðalega alvarlega, fyrst og fremst vegna þess að menn halda að þeir sem hjóla séu bara að leika sér. En þetta er lífsstíll og þetta er hollur og góður lífsstíll og er möguleiki fyrir fjölda gesta sem sækja til landsins.

Þetta snertir einmitt síðari spurningu hv. þingmanns um hvort auðvelt væri að markaðssetja svæðið. Jú, ég sé það vel fyrir mér sem hjólaparadís, nákvæmlega með sama hætti og verið er að gera á svæðum Niðurlanda, í Hollandi og Belgíu, og á svæðum í Þýskalandi þar sem menn geta hjólað milli bóndabæja, hjólað milli veitingastaða. Það sem við getum hins vegar bætt við er að hjóla á milli stórkostlegra náttúrufyrirbrigða milli þess sem menn stoppa í heimagistingu o.s.frv. Ég sé ekki mikið vandamál með þetta svo lengi sem menn leggja áherslu á hversu marflatt blessað Suðurlandið er.