143. löggjafarþing — 94. fundur,  9. apr. 2014.

fjögurra ára samgönguáætlun 2013--2016.

495. mál
[19:23]
Horfa

Edward H. Huijbens (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Útfærslan á þessu nákvæmlega er einmitt svo spennandi. Einn stóri þátturinn er sá að ferðaþjónusta býr við töluverða árstíðasveiflu. Það er dálítið sem við náum kannski að laga eitthvað en munum aldrei ná að laga alveg. Það mun alltaf verða svo að ferðamenn koma hér fyrst og fremst að sumarlagi, sem er einmitt lágönn almenningssamgangna í hefðbundnu formi. Það er því í raun möguleiki að reka tvöfalt kerfi, kerfi þar sem áfangastaðir í ferðaþjónustu eru sýnilegir og hægt að vera með þau stopp sem ferðamenn hafa áhuga á. Þau yrðu fyrst og fremst virk að sumri þegar minna er um aðra gesti og notendur almenningssamgangna. Ég sé ekki mikið vandamál í því vegna þess að að vetrarlagi eru færri ferðamenn og þetta gæti fúnkerað sem einhvers konar pöntunarþjónusta.

Aðalatriðið er að áfangastaðirnir séu sýnilegir. Ég sé ekki fyrir mér að það verði mikið stoppað við Jökulsárlón um háveturinn þegar aðrir, t.d. skólafólk, nýta almenningssamgöngur meira. Aðalatriðið er að laga almenningssamgöngur að ferðaþjónustu þannig að áfangastaðir verði sýnilegir, almenningsþjónustu til eflingar, að við nýtum okkur þá staðreynd að hér koma milljón gestir á ári til eflingar innviða sem hér eru. Þannig sé ég fyrst og fremst aðlögun almenningssamgangna að ferðaþjónustu.

Varðandi hitt held ég að það leysist að hluta með því að þetta er á tvískiptum tíma, sumar/vetur. Það leysist að hluta þannig en ekki að öllu leyti, og þá þarf að huga að því að hafa eins konar pöntunarþjónustu þannig að ekki sé verið að stoppa á stöðum þegar ekki þörf er á því. Þannig sé ég þetta gróflega fyrir mér. En við getum rætt þetta betur síðar.