143. löggjafarþing — 94. fundur,  9. apr. 2014.

fjögurra ára samgönguáætlun 2013--2016.

495. mál
[20:10]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég vil bara deila þeim sjónarmiðum þingmannsins að það sé mikilvægt að tvöföldunin austur sé sem best úr garði gerð. Það er ekki að tilefnislausu sem ráðist var í þær miklu framkvæmdir. Það voru einfaldlega grafalvarleg atvik þar ítrekað sem urðu til þess. Við eigum ekki bara að ljúka því verki heldur eigum við að ljúka því með sóma og reyna í því eins og öðrum áherslum í samgönguáætluninni að hafa augun á umferðaröryggisþættinum. Staðreyndin er sú að við missum allt of marga í umferðinni á hverju ári og allt of margir slasast alvarlega. Við getum gert miklu, miklu betur. Ég er sannfærður um það.

Ég hlakka til að heyra svör hv. þingmanns varðandi aðkomuna að Urriðafossi.

Ef hann hefur tíma til í síðara svari sínu þætti mér líka vænt um ef hann skýrði aðeins nánar ummæli sín um ferjuna og þær áhyggjur sem mér virtist þingmaðurinn hafa. Nú held ég að það býsna breið samstaða um það í þinginu að bæta þurfi verulega samgöngur við Vestmannaeyjar. Það vantar þar enn ferjuna sem fylgja átti höfninni og á að auka notagildi hafnarinnar til mikilla muna. Mér heyrðist þingmaðurinn hafa áhyggjur af því að hún gæti þurft að sigla til Þorlákshafnar og einhverjar áhyggjur af vali á ferju eða skilgreiningu í útboði. Ég áttaði mig ekki alveg á því hvað það var sem þingmaðurinn hafði fyrst og fremst áhyggjur af í því sambandi.