143. löggjafarþing — 94. fundur,  9. apr. 2014.

fjögurra ára samgönguáætlun 2013--2016.

495. mál
[20:19]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Við vitum að það þarf alltaf að forgangsraða og ég spyr fyrst og fremst um Sundabraut í því samhengi, þó að maður viti aldrei hvort endilega sé þörf á svona stóru samgöngumannvirki til framtíðar. Eins og við þekkjum myndast tappar í umferðinni í höfuðborginni á ákveðnum tímum.

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í hafnarframkvæmdir og stöðu hafna vítt og breitt um landið. Hv. þingmaður situr í umhverfis- og samgöngunefnd og hefur haft þar til umfjöllunar frumvarp til laga um breytingu á hafnalögum. Þar eru lagðar til breytingar sem miða að því að styrkja þessar hafnir og bregðast við fjárhagsvanda ýmissa hafna á landinu. Slíkur vandi er víða hjá minni höfnum landsins og jafnvel í stærri sveitarfélögum sem eru með margar hafnir í rekstri og geta ekki lokað einhverjum höfnum og haft bara eina. Ég þekki vel bara eins og í mínu sveitarfélagi, Ísafjarðarbæ, þar sem reknar eru fjórar hafnir. Ég vil heyra mat hv. þingmanns á því hvort ekki sé farið að styttast í að menn ljúki þessu máli, sem er mjög brýnt. Það tekur á samrekstri hafna og vanda hafna, sérstaklega minni hafna. Ég veit að beðið er eftir því á mörgum stöðum að menn ljúki við það frumvarp og afgreiði það.