143. löggjafarþing — 94. fundur,  9. apr. 2014.

fjögurra ára samgönguáætlun 2013--2016.

495. mál
[20:42]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú held ég að ég og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson höfum verið fulllengi í stjórnmálum. (Gripið fram í.) Ég held að ég geti tekið undir hvert orð í ræðu hv. þingmanns og þakka honum fyrir þarfa ádrepu og sérstaklega næman skilning á þeim miklu verðmætum sem við eigum í ósnortnu hálendi og þó umfram allt áhersluna á umferðaröryggismálin. Ég vil lýsa þeirri skoðun minni að við eigum ekki að hætta í þeim leiðangri fyrr en banaslysum hefur verið útrýmt úr umferðinni. Mönnum kann að þykja það býsna brött yfirlýsing en ég minni á að í upphafi þessarar aldar náðum við því marki að eiga ár án dauðaslysa á sjó. Það er ekki ýkja langt síðan mönnum hefði þótt óhugsandi að það liði heilt ár án þess að nokkur maður léti lífið við Ísland. Það er árangurinn af miklu og góðu starfi og skipulagi og við getum gert það sama í umferðinni.

Ég vildi spyrja hv. þingmann um annað. Það er Sundabrautin sem hæstv. ráðherra hefur lagt áherslu á að komi helst til greina sem einkaframkvæmd og að hana megi fjármagna með veggjöldum, þá með tilvísun til þess að þeir sem nýti þá leið eigi annan valkost um að fara. Ég vil alls ekki útiloka þetta, en það sem er umhugsunarefni í því er að fyrsti áfangi Sundabrautar er tenging yfir Elliðavoginn yfir í Grafarvog, í rauninni tenging vestari hluta borgarinnar við hinn austari hluta í Grafarvoginum. Ég vildi spyrja hv. þingmann hvort hann teldi koma til greina að innheimta veggjald á þeirri leið með vísan til þess að Grafarvogsbúar ættu annan valkost í samgöngum. (Forseti hringir.) Eins vil ég spyrja hvaða leið í þeim fyrsta áfanga hann teldi affarasælast að fara. Það eru náttúrlega nokkrar leiðir sem koma þar til greina.