143. löggjafarþing — 94. fundur,  9. apr. 2014.

fjögurra ára samgönguáætlun 2013--2016.

495. mál
[20:51]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér fjögurra ára samgönguáætlun. Ég gleðst mjög mikið yfir því að Dýrafjarðargöngin eru inni á þeirri samgönguáætlun. Maður hafði vissar áhyggjur af því að enn eina ferðina yrði þeim framkvæmdum ýtt lengra inn í framtíðina en svo er ekki. Það ber að gleðjast yfir því sem vel er gert, að þeirri áætlun sé haldið sem hafin var í tíð fyrri ríkisstjórnar.

Ég hef áhyggjur af því hve mikla fjármuni vantar í vegaframkvæmdir í landinu. Við vitum að á síðasta kjörtímabili var dregið úr öllum framkvæmdum og menn einbeittu sér að ákveðnum stórum framkvæmdum eins og í Barðastrandasýslu, á Vestfjarðavegi 60, sem var orðin mjög brýn framkvæmd. Lagðir voru, að mig minnir, 3 milljarðar í þær framkvæmdir og vonandi fer að sjá fyrir endann á þeim. En það fer ekki á milli mála að víða er viðhald vega orðið mjög lítið og vegir lélegir og það getur til lengri tíma litið kostað samfélagið og Vegagerðina miklu meiri fjármuni að laga þá vegi miðað við að þeir hefðu fengið eðlilegt viðhald. Þá hefði viðhaldskostnaður ekki hrannast svona upp en mikil þörf er á að fara í viðhald.

Ef maður tekur þessa héraðs- og tengivegi, sem eru víða um land og eru orðnir lélegir víða, malarvegir — eins og í mínu kjördæmi, Norðvesturkjördæmi, eru í uppsveitum Borgarfjarðar mjög lélegir vegir og líka í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum. Borið hefur á því að með aukinni ferðamennsku er mjög til baga hve þessir vegir eru orðnir lélegir. Þó að við viljum reyna eins og við getum að nýta fjármagnið vel og forgangsraða í þágu brýnustu framkvæmda verða menn að fara að setja þessa héraðs- og tengivegi fyrir alvöru inn á áætlun þannig að þar séu teknir kaflar og bundið slitlag lagt á og eðlilegt viðhald fari þar fram.

Ég talaði um Dýrafjarðargöngin, sem er mikið ánægjuefni að séu áfram inni, en hér kemur fram að áframhald framkvæmda á Vestfjarðavegi, til að ljúka þeim, er í ákveðnum hnút, pattstöðu, það mál. Það væri mjög slæmt ef ekki fyndist niðurstaða í því máli. Búið er að ákveða að fjármagna þessar framkvæmdir og ljúka þeim og ef þessi framkvæmd heldur áfram að ýtast inn í framtíðina, á forsendum þess að ekki sé hægt að finna út endanlegt vegarstæði á þeirri leið sem eftir er, þá hefur það miklar afleiðingar fyrir þetta svæði sem er nú sem betur fer að byggjast upp, suðursvæði Vestfjarða. Miklar væntingar og tækifæri eru í stöðunni, bæði með uppbyggingu á laxeldi og aukinni ferðamannaþjónustu og uppbyggingu á því sviði í Vesturbyggð, uppbyggingu fallegra og frábærra náttúruparadísa sem eru þarna, eins og Látrabjargs og fleiri staða. Við getum ekki horft upp á það að þetta frestist eina ferðina enn. Ég tel mjög mikilvægt, eins og komið var inn á hér áðan hjá hv. þm. Haraldi Benediktssyni, að við þingmenn og umhverfis- og samgöngunefnd fylgjumst mjög vel með þessu máli og framgangi þess, hvort við getum með einhverjum hætti komið að lausn þessara mála því að það verður að fara að höggva á þennan hnút með einhverjum hætti, tel ég.

Svo eru það blessuð Dýrafjarðargöngin. Í þessari miklu umræðu um slæmt atvinnuástand á þessu viðkvæma svæði horfa menn vissulega til þess hvort ekki sé einhver möguleiki á að flýta eitthvað þeirri framkvæmd, að minnsta kosti að skoða hvort ekki verður hægt að fara fyrr í uppbyggingu vegarins sunnan megin við Dynjandisheiði og þann veg. Mér skilst að uppi séu hugmyndir um að skoða þann möguleika að taka einhverja kafla þar fyrir og byrja á þeim og ég tel mjög brýnt að reyna með öllu móti að hraða því sem hægt verður að hraða varðandi þær framkvæmdir, Dýrafjarðargöng og Dynjandisheiði. Atvinnuástand á þessu svæði kallar á sterk skilaboð um að þessi landshluti geti strax tengst innbyrðis þegar mikil uppbygging er í pípunum varðandi laxeldi í Arnarfirði og á fjörðunum þar í kring og samtenging við uppbyggingu á norðanverðum Vestfjörðum varðandi þjónustu og atvinnu.

Ég vil líka minnast aðeins á Gjögurflugvöll. Þær fréttir að ekki ætti að leggja bundið slitlag á Gjögurflugvöll er mjög slæmt að heyra, og ég vildi kannski heyra betur frá hæstv. innanríkisráðherra með þann flugvöll. Hann er eini flugvöllurinn í landinu sem áætlunarflug er á sem er ekki bundinn slitlagi. Ég tel mjög brýnt að lagt verði bundið slitlag á hann sem fyrst. Hann þjónar þeim byggðum sem eru norðarlega í Árneshreppi og er mjög mikilvægur. Ég tel að það sé ekki spurning að ljúka verður þeim framkvæmdum sem fyrst.

Ég lýsi líka ánægju yfir því að bjóða eigi út nýja samninga við það flug sem er ríkisstyrkt í dag og þá flugvelli. Þetta eru almenningssamgöngur og mjög brýnt að þau mál séu ekki í einhverju uppnámi varðandi samninga við þá aðila sem þjóna þessum stöðum og það skiptir vissulega miklu máli.

Ég vil líka spyrja hæstv. innanríkisráðherra út í landfyllingu og uppbyggingu við höfnina á Bíldudal þar sem Arnarlax ætlar að fara að setja upp aðstöðu og fiskréttaverksmiðju í tengslum við laxeldið. Hvað er að frétta af þeim málum? Ég kom líka áðan inn á það, í andsvari varðandi breytingu á hafnalögum, það mál er til umfjöllunar í umhverfis- og samgöngunefnd og er mjög brýnt að fá það hér fram á Alþingi og samþykkja. Þar er tekið á fjárhagsstöðu hafna, sem er mjög brýnt því að viðhald margra hafna er ekki nógu gott eins og það er í dag. Það er þungur rekstur og þetta frumvarp mun koma til stuðnings því að auðveldara verði að reka hafnir í sveitarfélögum þar sem margar hafnir eru (Forseti hringir.) og þarf að halda úti starfsemi á þeim öllum.