143. löggjafarþing — 94. fundur,  9. apr. 2014.

fjögurra ára samgönguáætlun 2013--2016.

495. mál
[21:21]
Horfa

Sigrún Magnúsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda, hv. þingmanni, kærlega fyrir þetta andsvar. Ég held að við séum á sama máli. Það hentar ekki skoðunum mínum að fara að greiða gjald innan borgarinnar og ekki hvað síst út af því gamla loforði sem ég gat um, sem mér finnst að við eigum að uppfylla. Við erum að tengja það hverfi nær miðborginni með þessari vegarlagningu. Ég geri mér líka grein fyrir því að maður þarf stundum að skoða ýmsa hluti til að koma þeim áleiðis og þess vegna nefndi ég þetta samvinnuverkefni. Það er kannski svolítið djarft að gera það án þess að vera búin að ræða til dæmis við yfirvöld Faxaflóahafna, en ég endurtek það sem ég sagði áðan að ég tel ávinninginn vera mikinn af því að stytta þessa leið og það er ávinningur fyrir þau fyrirtæki. Ég veit að hv. þm. Guðbjartur veit að það er mikil ásókn í að setja fyrirtæki niður á Grundartanga og kannski mundi það vera ávinningur fyrir þau fyrirtæki eða liðka fyrir ef Sundabraut væri komin á laggirnar, ávinningurinn gæti verið í ýmsar áttir.

Hv. þingmaður kom með athyglisverða hugmynd um að menn gætu kannski keypt sig inn í ákveðið kerfi. Ég kann ekki skil á því en mér líst við fyrstu sýn vel á hugmynd hans.