143. löggjafarþing — 94. fundur,  9. apr. 2014.

fjögurra ára samgönguáætlun 2013--2016.

495. mál
[21:23]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Áfram í sömu umræðu. Ég tek undir með hv. þingmanni að Grundartangasvæðið er aðlaðandi og menn hafa jafnvel verið að ræða um að það þrengi að Sundahöfn innan Reykjavíkur og þar af leiðandi væri hugsanlegt að færa meira af hafnarstarfseminni á Grundartanga. Það er auðvitað háð því að menn þurfi ekki að borga sérstök gjöld að og frá fyrir daglega flutninga. Þó að það hafi orðið gríðarleg samgöngubót með Hvalfjarðargöngum og framkvæmdin hafi tekist mjög vel þá sagði ég að það væri ekkert óeðlilegt að borgað væri inn í þau fyrstu 10–15 árin. En þegar það er eina gjaldtakan í öllu vegakerfinu á Íslandi verður að líta á það sem töluverða hindrun, m.a. varðandi ferðaþjónustu, daglegar heimsóknir og líka fyrir fyrirtæki sem eru að reyna að setja starfsemi þar niður og borga tugi milljóna á ári í gangagjöld.

Af því að hv. þingmaður nefndi markmiðið að ljúka Sundabraut í síðasta lagi 2030 og hafði þá í huga Þingvallahátíðina langar mig að spyrja hv. þingmann hvort henni litist ekki betur á það sem var rætt í tengslum við hátíðina árið 2000, þ.e. að opna Uxahryggjaleiðina og Lundareykjadalinn inn á Vesturland. Það er verið að vinna stutta kafla á hverju ári í Lundareykjadalnum. Ég held að það mundi gjörbreyta ferðaþjónustu á Vesturlandi ef hægt væri að fara hring á þessu svæði, plús það að opna nýjar ferðamannaleiðir og aðgang að náttúruperlum á Vesturlandi sem skiptir mjög miklu máli. Það mundi leysast þannig að umferðin yrði, eins og ég segi, hringrás en ekki fram og til baka með tilheyrandi álagi á ákveðnum stöðum eins og umferð að Þingvöllum hefur verið í tengslum við slíkar hátíðir og raunar hvort sem er. Ég held að það sé eitt af því sem menn eigi að horfa á til lengri tíma. Ég veit að það var rætt síðast en var ekki gert enda var síðasta hátíð þannig að það voru engar umferðarteppur. Vonandi verður (Forseti hringir.) hægt að halda stórhátíð 2030 en þetta þyrfti að koma miklu fyrr sem hluti af því að breyta umferð ferðamanna á Íslandi.