143. löggjafarþing — 94. fundur,  9. apr. 2014.

fjögurra ára samgönguáætlun 2013--2016.

495. mál
[21:27]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér samgönguáætlun til næstu fjögurra ára eða fyrir árin 2013–2016. Eins og segir í tillögunni er þetta endurskoðuð og uppfærð verkefnaáætlun fyrir seinni hluta fyrsta tímabils af tólf ára áætlun sem var lögð fram fyrir árin 2011–2022.

Í sjálfu sér eru engar stórbreytingar frá fyrri áætlunum þó að tilfærslur séu nokkrar. Kannski er stærsta breytingin sú að núverandi ríkisstjórn strokaði út fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar sem átti að fjármagna sérstakt átak í ákveðnum verkefnum, m.a. í vegamálum. Það var í rauninni strokað út þó að sumt af því sem var í þeirri áætlun væri svo tekið inn í sjálfa samgönguáætlun. Þar voru áætlaðir 7,5 milljarðar fyrir árin 2013–2015. Hluti af því var ætlaður í Norðfjarðargöng og sem betur fer lifði það af nýja ríkisstjórn og er til framkvæmda núna á þessu tímabili. Eins koma framkvæmdir í tengslum við atvinnuuppbyggingu á Bakka að hluta til inn í uppbygginguna áfram. Það er óljóst um hugmyndir varðandi Herjólf og Landeyjahöfn, ég átta mig ekki alveg á hvað mikið lifir af þeim, en það var reiknað með 2,3 milljörðum kr. til þess að hraða framkvæmdum þar og bæta aðstöðuna til þess að höfnin gæti nýst og tengingin við Vestmannaeyjar orðið öflugri. En þetta var ásamt sóknaráætlunum og ýmsum öðrum verkefnum sem tengdust fjárfestingaráætluninni hreinlega strokað út. Við höfum fengið að fylgjast með því núna þegar ríkisstjórnin reynir að koma sóknaráætlunum aftur á vegna þess að það voru gríðarleg mistök að lækka fjárveitingar hvað þær varðaði, taka valdið úr héraði og færa það til ráðuneyta og Alþingis. Það var búið að koma á mjög góðu fyrirkomulagi sem sveitarfélög og landshlutasamtök voru sérstaklega ánægð með og hafði tekist einstaklega vel með.

Því ber að fagna að í þessari áætlun er fylgt eftir því sem var í fjárfestingaráætluninni, en það er örlítil aukning til viðhalds vega og þjónustu á vegum. Þó eru enn þá ákveðnir vegir með skerta þjónustu og takmarkaða vetrarþjónustu og þannig hefur það verið áður. Það hefur ráðið í gegnum árin, að sumu leyti eðlilega, að menn hafa reiknað út hagkvæmni vega og forgangsraðað eftir því. Það verður þó að segjast eins og er að slíkt er aldrei sanngjarnt þegar um er að ræða heilu landsvæðin sem þar með verða út undan vegna þess að þar er tiltölulega lítil umferð miðað við umferðarþyngstu kafla íslenska vegakerfisins. Til dæmis biðu Vestfirðirnir nánast meira og minna eða sátu út undan um árabil eins og oft hefur komið fram hér í þinginu. Fyrrverandi þingmaður Ólína Þorvarðardóttir var óþreytandi að benda á það að á sama tíma og við ræðum um viðhald vega og endurnýjun og lagfæringar á vegakerfi landsins vantar í raun grunnvegi á Vestfjörðum, sérstaklega á ákveðnum köflum eins og á sunnanverðum Vestfjörðum og Vestfjarðavegi 60. Það skiptir gríðarlega miklu máli að það verkefni verði sett í forgang. Ég var afskaplega ánægður með það þegar hæstv. ráðherra, strax eftir að hún tók til starfa, kom með afdráttarlausa yfirlýsingu um að Vestfirðir væru forgangsverkefni í vegagerð. Ég treysti á að það gangi eftir.

Það er vandræðagangur enn þá varðandi Teigsskóg og hvernig vegleiðin eigi að vera. Þar eru líka verulegir peningar í húfi ef leita á nýrra lausna. Það skiptir miklu máli að sátt náist með einhverjum hætti um þá leið. Það olli vonbrigðum að þegar hæstv. ráðherra gerði tilraun til að setja fjórar eða fimm leiðir, ég held að ég hafi rétt fyrir mér, í umhverfismat til þess að vega og meta kostina og eiga þá valmöguleika í framhaldinu, var því hafnað að taka til endurmats B-leiðina, þ.e. í gegnum Teigsskóg eða ofan við Teigsskóg, eins og ég vil nú frekar segja. Sú leið hafði farið í mat áður og þess vegna talið að hún gæti ekki farið að nýju í mat.

Ég vona að á þessu finnist lausnir og íbúar í Vesturbyggð og raunar á ströndinni, sunnanverðum Vestfjörðum og Tálknafirði og öllu því svæði eiga það skilið að við komum þessum landshluta í almennilegt vegasamband. Eins og komið hefur fram hjá öðrum þingmönnum Norðvesturkjördæmis, hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur og hv. þm. Haraldi Benediktssyni eigum við þvílíkar náttúruperlur á þessu svæði og einnig hefur verið talað um að mynda þjóðgarð um Látrabjargið. Það þarf auðvitað að vera opin, góð leið að þessum svæðum þannig að bæði Íslendingar og erlendir ferðamenn geti notið þessa svæðis.

Þessu tengt, bæði með tilliti til atvinnu og ferðamennsku og annars slíks, þarf að ljúka hringvegi á Vestfjörðum. Þar eru Dýrafjarðargöng mikilvægust og frágangur á Dynjandisheiðinni. Það hlýtur að verða eitt af baráttumálunum að reyna að hraða þeirri framkvæmd og tryggja að hún fái öruggan framgang á eins skömmum tíma og hægt er, því að á sama tíma eru breytingar að verða á atvinnuástandi vegna kvótakerfisins. Enn er verið að færa fyrirtæki af svæðinu, sem skilur heilu bæjarfélögin eftir í sárum. Þar verður að bregðast við. Samtímis hafa þó verið vaxtarbroddar sem tengjast laxeldi og nýtingu á fjörðunum á Vestfjörðum til þess að vera með öflugt laxeldi. En það er háð því að menn geti nýtt svæðið allt, alveg frá Ísafirði og suður úr, og þá verða samgöngur að vera góðar. Dýrafjarðargöng eru algjörlega lykilinn að því ásamt Dynjandisheiði. Ég treysti því á að það verði lagfært, þ.e. að það verði afdráttarlausara hvernig verði farið í þá framkvæmd og henni tryggt fjármagn á sama tíma.

Á svona stóru svæði eins og Norðvesturkjördæmi, ef maður einbeitir sér bara að því í þessari tíu mínútna ræðu, er auðvitað gríðarlega langt vegakerfi, fleiri þúsund kílómetrar. Það var gaman þegar maður var að fara í kosningabaráttuna, við keyrðum þarna yfir 3 þús. kílómetra án þess að heimsækja nálægt því alla bæi eða alla staði á svæðinu. Það skiptir mjög miklu máli að menn haldi vel við tengivegum og minni vegum sem tengja saman staði og bændabýli á þessum svæðum. En það er jafnframt þannig að ef menn ætla innan skamms tíma að taka á móti einni milljón ferðamanna og jafnvel meira, það er talað um eina og hálfa milljón, er eins gott að þeir tryggi að umferðin verði líka í vesturátt og aukist mikið. Fjöldi gistinátta á þessu svæði hefur aukist en það þarf meira til. Vegakerfið þarf að vera gott, og það er það að sumu leyti, en síðan er móttaka á sumum ferðamannastöðum þannig að ekki er allt tilbúið. En við eigum þvílíkar náttúruperlur í Borgarfirðinum öllum, Snæfellsnesinu öllu og á Vestfjörðunum, þannig að það þarf að koma umferðinni yfir á þessi svæði, bæði með bættri aðstöðu og betri samgöngum í sumum tilfellum.

Þar getur skipt máli, eins og við vorum að ræða hér áðan, Uxahryggjaleið, tengingin frá Þingvöllum og yfir í Borgarfjörðinn. Þar getum við líka séð fyrir okkur Laxárdalsheiði og Skógarströnd, á því svæði gætu orðið til skemmtilegar samgönguleiðir svo eitthvað sé nefnt, þó að það sé ekki akkúrat það sem gerist á næsta ári.

Þegar rætt er um uppbyggingu ferðamannastaða voru einmitt áætlaðir 1,5 milljarðar í fjárfestingaráætluninni í uppbyggingu á ferðamannastöðum á þessum þremur árum. Það er grátbroslegt að horfa svo á ríkisstjórnina núna engjast í vandræðum með að eiga ekki fjármagn til þess að byggja upp og laga ákveðna ferðamannastaði. Nú horfum við svo upp á þessa villimennsku sem ég vil kalla í gjaldtöku þar sem allir eru komnir með dollaramerki í augun og ætla að sækja sér pening fyrir ákveðin landsvæði í staðinn fyrir að standa vel að því að byggja upp svæðin sameiginlega og með sameiginlegri gjaldtöku þannig að við getum boðið upp á góða þjónustu á hverju svæði og góða móttöku fyrir ferðamenn.

Tími minn er búinn en þetta mál fer til í umræðu í hv. umhverfis- og samgöngunefnd og þingmenn verða að fá tækifæri til að fá betri skýringar á einstökum þáttum og koma að því að endurskoða þessa áætlun á milli umræðna.