143. löggjafarþing — 94. fundur,  9. apr. 2014.

fjögurra ára samgönguáætlun 2013--2016.

495. mál
[22:00]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góðar undirtektir við hugmynd mína um jarðgöng í Garðabæ. Mig langar bara að segja það hér vegna þess að ég hafði ekki tíma til þess í ræðu minni en mig rekur minni til að það hafi verið sett til hliðar einhver hundruð milljóna til úrbóta á þessum gatnamótum í Garðabæ. Framkvæmdin ætti að vera á annan milljarð, sem væri stokkur undir þessi gatnamót. Það er kannski ekki óbrúanlegt bil þar á milli þegar samfélagslegi kostnaðurinn af biðinni þarna og töfunum er tekinn inn í myndina.

Varðandi spurningu hv. þingmanns er ég sammála honum um að það er skaði að ekki sé gert ráð fyrir því að Arnarnesveginum verði fulllokið. Það skiptir auðvitað miklu máli að hann nái alla leið inn á Breiðholtsbrautina þannig að miðlunarkerfið sem honum er ætlað að skapa með tengingunni við Vesturlandsveg með — ja, hvað eigum við að segja? — eðlilegra og þægilegra aðgengi fólks í nýjum hverfum Kópavogs að þjónustu sé tryggt. Það verður auðvitað ekki nema menn ljúki alfarið við þetta verkefni. Þarna eru komnir þjónustukjarnar vítt og breitt eins og stiklur. Þessi vegur verður eins og að þræða nál á milli þessara stikla. Það skiptir máli, held ég, fyrir alla í þessum hverfum að geta notið aðgangs að þeirri þjónustu með einföldum hætti.