143. löggjafarþing — 94. fundur,  9. apr. 2014.

fjögurra ára samgönguáætlun 2013--2016.

495. mál
[22:27]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Bara til að það misskiljist ekki í ljósi síðustu orðaskipta þá gleðst ég að sjálfsögðu yfir því að Dýrafjarðargöng séu að komast áfram og að horfi til betri tíma í samgöngumálum Vestfjarða. Stendur síst á mér að fagna því eins og ég hef jafnan gert, að reyna að standa með Vestfirðingum í réttmætum kröfum þeirra um úrbætur á þessu sviði. En það gildir auðvitað um marga fleiri. Hér mætti nefna Seyðisfjörð og þá mjög erfiðu stöð sem það byggðarlag er í, eins og undangengnir vetur hafa sýnt og sannað.

Það sem ég vildi aðeins ræða og var orsök þess að ég setti mig aftur á mælendaskrá er sú umræða sem hefur af og til komið hér upp um einkaframkvæmdir og einkafjármögnun í samgöngumálum. Ég tel galla á þeirri umræðu að menn skuli ekki tala skýrt og það liggi fyrir um hvað menn séu að tala. Það er mikill munur á einhvers konar einkaframkvæmd, einkarekstri, einkafjármögnun eða einkaverkefna annars vegar og svo spurningunni um hvort verkefnið sé fjármagnað með gjaldtöku af umferðinni sérstaklega og þarf enga einkaframkvæmd til ef svo ber undir. Ég held að það væri nær að ræða þetta á þessum tveimur grundvallarforsendum. Erum við að tala um hefðbundnar framkvæmdir sem eru fjármagnaðar með mörkuðum tekjum Vegagerðarinnar með almennum sköttum af umferð alls staðar í landinu, eins og gildir um Vegasjóð, eða erum við að tala um stakar framkvæmdir, eins og Hvalfjarðargöng, eins og Vaðlaheiðargöng, sem er ætlað að standa undir sér að mestu eða öllu leyti með gjaldtöku á þá umferð sem fer um viðkomandi göng eða nota viðkomandi mannvirki?

Það er að sjálfsögðu engin forsenda fyrir því þó að menn ákveði slíka gjaldtökuleið að einhver einkaaðili annist um framkvæmdina. Ríkið getur nákvæmlega eins gert það sjálft og hefði kannski betur alltaf gert þó að það megi vissulega viðurkennast að í tilviki Hvalfjarðarganga og Spalar hefur sú framkvæmd gengið ágætlega og prýðilega og betur en spár gerðu ráð fyrir og miklu betur en hrakspárnar gerðu ráð fyrir, sem spáðu því að enginn mundi fara um göngin, menn mundu umsvifalaust keyra Hvalfjörðinn frekar en fara þarna ofan í jörðina, þetta færi allt saman á hausinn o.s.frv. Sá sem hér stendur þekkir vel til þess því að það vill svo til að ég var samgönguráðherra þegar lögin voru sett um Hvalfjörð og skrifaði undir samningana við Spöl. Það var þannig frá því máli gengið, sem skiptir líka máli hér, að í fyrsta lagi var félagið meira og minna opinbert þar sem Akraneskaupstaður, Sementsverksmiðja ríkisins og fleiri aðilar lögðu á sínum tíma fram hlutaféð. Síðan er kirfilega frá því gengið að um leið og gjaldtakan hefur borgað lánin upp og dugað til að skila hlutafénu til eigenda þess aftur til baka með uppreiknaðri ávöxtun þá rennur mannvirkið til ríkisins og verður eign ríkisins, færist inn í hið almenna vegakerfi. Hið sama gildir um Vaðlaheiðargöng.

Þetta er að mínu mati mjög mikilvæg forsenda þess að menn eigi yfir höfuð að skoða framkvæmd af þessu tagi. Þess vegna er slíkt tal um einkaframkvæmd og einkafjármögnun að mínu mati mjög afvegaleiðandi vegna þess að það er ekki aðalatriðið, það er ekki það sem skiptir aðallega máli heldur spurningin: Ætlum við að taka einhverjar framkvæmdir og reyna að ráðast í þær og eftir atvikum flýta þeim af því að það eru forsendur til þess að skattleggja sérstaklega umferðina sem nýtir þær? Þannig er hægt að hraða framkvæmdinni og láta gjaldtöku borga hana smátt og smátt upp.

Ég tel að í tilvikum eins og Hvalfjarðarganga og Vaðlaheiðarganga, þar sem margt vinnst með slíkri flýtingu, sé ekki pólitísk samstaða um að taka slíkar framkvæmdir fram fyrir í samgönguáætlun og fjármagna beint með ríkispeningum og þá sé þetta réttlætanlegt og hafi gengið vel enda séu forsendurnar til staðar, t.d. þær að menn eigi annan valkost sem hefur áhrif á það að gjaldtökunni verði stillt í hóf til að ýta ekki umferðinni í burtu, um slíkt geti orðið pólitísk samstaða enda séu menn tilbúnir til að greiða veggjöldin. En það hefur ekki alls staðar reynst þannig. Var það ekki þannig að menn voru að tala um stórfelld plön um uppbyggingu hraðbrautanna út frá höfuðborgarsvæðinu og flýta því öllu saman á botni kreppunnar ef vilji væri til staðar til að taka mjög hófleg veggjöld, kannski 100–200 kr. austur fyrir fjall? Það vildu menn ekki og þar af leiðandi var ekki farið í þá framkvæmd. Gott og vel. En þar sem menn eru tilbúnir til að taka á sig gjaldtökuna þá gegnir öðru máli. (Forseti hringir.)

Að síðustu, herra forseti, verð ég að segja að ég vara hins vegar við þeim hugmyndum að fara með þessa leið inn í flugið þar sem engar sambærilegar aðstæður eru til staðar um valkosti eins og geta átt við á afmörkuðum stöðum í vegakerfinu.