143. löggjafarþing — 94. fundur,  9. apr. 2014.

fjögurra ára samgönguáætlun 2013--2016.

495. mál
[22:38]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi almenningssamgöngurnar er mín afstaða ósköp einföld. Hún er sú að það á að sjálfsögðu að halda þessari merku tilraun áfram og engin efni til þess að bakka eitthvað með hana. Það er ljóst að reynslan er að uppistöðu til mjög góð og almenn ánægja er ríkjandi með að þessar verulega bættu almenningssamgöngur hafa komið til. Það eru vandamál uppi á ákveðnum stöðum. Þau tengjast t.d. því að menn hafa ekki náð almennilega saman sums staðar um skiptinguna af innkomunni á ábatasömustu leiðunum og hvernig hægt er að nota þær tekjur til að hjálpa til við að reka kerfið í heild. Það þarf að útkljá þessi sérleyfamál. Það á ekki bora kerfið í sundur með því að tína út einstakar ábatasamar leiðir og hafa þær utan við kerfið. Ég held að þetta verði að vera heildstætt kerfi ef það á að ganga upp. Síðan þarf að leggja fjármuni til þróunar sérstaklega á þeim svæðum þar sem augljóslega er mest verk fyrir hendi að þróa kerfið og það er ekki endilega út frá Reykjavík þó að mestu þróunarpeningarnir fari þangað. Ég tel að það þurfi að stokka þetta upp. Það er augljóst mál.

Það er margt mjög gott og metnaðarfullt sem hefur verið gert í þessu verkefni en það eru veikleikar í því sem þarf að takast á við. Þeir tengjast ekki síst því að norðursvæðið kemur mjög illa út úr skiptingunni bæði hvað varðar þróunarféð og að deilur eru um að ábatinn af hinni ábatasömu leið milli Reykjavíkur og Akureyrar komi í nægjanlegum mæli til að standa straum af rekstri þar.

Rannsóknarféð í Fjarðarheiðina er því miður ansi naumt. Það þyrfti sennilega að vera tvöfalt eða svo ef við ættum nokkurn veginn að fá þau gögn á næstu þremur, fjórum árum sem við helst vildum hafa, þ.e. að það væri hægt að taka kjarna og þétta það net nægjanlega til að menn gætu t.d. byrjað að teikna snið af göngunum og áttað sig á því í hvaða berglögum þau ættu að liggja o.s.frv. Þetta dugar kannski til að staðsetja líklegustu gangamunna (Forseti hringir.) en er allt of lítið til að hægt sé að taka nægjanlega góð snið til að fullhanna göngin.