143. löggjafarþing — 94. fundur,  9. apr. 2014.

fjögurra ára samgönguáætlun 2013--2016.

495. mál
[22:54]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst varðandi það sem nefnt var um innanlandsflugið og útboð. Það er hárrétt sem fram kemur hjá hv. þingmanni að því þarf að ljúka og það verður klárað innan þess tímaramma sem er markaður í það, og eins og hv. þingmaður sjálfsagt þekkir er miðað við að klára það á vordögum. Eins og ég sagði áðan gera embættismenn mínir eða embættismenn ráðuneytisins ráð fyrir því að því ljúki í lok apríl og menn standi þá frammi fyrir því nákvæmlega hvernig verður haldið á því máli. Ég tek undir það með hv. þingmanni að það er mikilvægt. Það hefur hins vegar verið ákveðin skoðun í gangi, sérstaklega hvað varðar Sauðárkrók, sem menn eru að rýna og við þurfum að fá botn í.

Varðandi mörkuðu tekjurnar er það auðvitað eitthvað sem hefur verið ítarlega og oft rætt hér. Eins og hv. þingmaður sagði er svo sem ekki við einn að sakast í því. Eins og kemur fram í þingsályktunartillögunni á bls. 23 hafa á undanförnum árum gjaldskrár markaðra tekna ekki hækkað í takt við verðlag og þetta hefur sannarlega rýrt tekjustofna Vegagerðarinnar verulega. Á bls. 23 kemur líka fram að ef gjaldskrár markaðra tekjustofna Vegagerðarinnar hefðu verið hækkaðar á umliðnum árum í takt við verðlag, eins og flestar aðrar opinberar gjaldskrár, væru tekjustofnarnir að skila hátt í 25 milljörðum á ári í staðinn fyrir 16 milljörðum kr. Þetta er eitthvað sem við þurfum að rýna og hefðum kannski, eins og hv. þingmaður benti á, átt að gera fyrir nokkru síðan. En við erum að reyna, eins og ég hef ítrekað sagt í þessari umræðu, að tryggja að við höldum þá samgönguáætlun sem viðmiðið hefur verið og þess vegna er gert ráð fyrir ákveðnum hækkunum á framlögum ríkissjóðs í verkefnin á árunum 2015 og 2016. Það breytir þó engu um það, og ég árétta það sem ég hef áður sagt, að ætli menn að styrkja og efla innviði í íslensku samfélagi og treysta þannig ekki aðeins (Forseti hringir.) byggðaþróun í landinu heldur einnig hagvöxt þarf meira fjármagn í samgöngur.