143. löggjafarþing — 94. fundur,  9. apr. 2014.

flutningur netöryggissveitar til ríkislögreglustjóra.

520. mál
[23:11]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er hárrétt og er rétt að árétta það vegna þess að það kom örugglega ekki nægilega skýrt fram í máli mínu áðan. Ástæðan fyrir því kemur fram í frumvarpinu og í greinargerð með því, það má segja sem svo að þetta frumvarp sé skemmri skírn hvað það varðar vegna þess að við teljum mikilvægt að ganga strax í verkefnið. Hins vegar er Póst- og fjarskiptastofnun fjármögnuð af ákveðnum þjónustutekjum af hálfu fjarskiptafyrirtækjanna og til þess að við náum að afgreiða málið fljótt og örugglega þurfum við að færa verkefnið með þessum hætti frá Póst- og fjarskiptastofnun með ákveðnum þjónustusamningi við almannavarnadeild ríkislögreglustjóra í staðinn fyrir að flytja það formlega alveg yfir, en það gerum við líka, vegna þess að við teljum, eins og hv. þingmaður benti á, mjög mikilvægt að sú sérfræðiþekking sem byggð hefur verið upp á frekar skömmum tíma, bara frá því síðastliðið sumar, flytjist yfir með starfsmönnum og öðru því sem fylgja verður með í fyrstu atrennu yfir til almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra. Hugmyndin er sú að á endanum verði verkefnið alfarið þar, en á meðan við erum að ná tökum á verkefninu, m.a. vegna hversu ungt verkefnið er, er talið farsælla að gera þetta svona.

Lögfræðingar ráðuneytisins sátu lengi og vel yfir því. Það voru nokkrar leiðir færar, en þetta var leiðin sem tryggði okkur að við héldum tengingunni við Póst- og fjarskiptastofnun í þessari fyrstu atrennu og að við gætum farið í framkvæmdina sem allra fyrst. Þetta er skemmri skírn að ákveðnu leyti, en eins og fram kemur í greinargerðinni völdum við að þessu sinni að fara einfaldari leiðina. Það lýtur líka að fyrirkomulaginu sem er á Póst- og fjarskiptastofnun og líka því á grundvelli hvaða framlaga þjónustutekjurnar byggjast.