143. löggjafarþing — 94. fundur,  9. apr. 2014.

flutningur netöryggissveitar til ríkislögreglustjóra.

520. mál
[23:19]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég deili þeirri skoðun með hv. þingmanni að ég treysti því og veit að verkefnið verður vel unnið af þingnefndinni sem tekur það að sér. Varðandi það sem við vorum að ræða áðan, og til þess að nefndin sé alveg meðvituð um það, ítreka ég það sem kom fram í framsöguræðu minni, að í 3. gr. frumvarpsins kemur mjög skýrt fram, og er auðvitað sterkari þáttur en athugasemdirnar sem við hv. þingmaður ræddum áðan, og stendur orðrétt: Við gildistöku laga þessara skal forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar með þjónustusamningi fela ríkislögreglustjóra að starfrækja netöryggissveit. Málið á að vera eins skýrt og það mögulega getur verið og á ekki að vekja neinar spurningar um það hvort hægt sé að flytja verkefnið eitthvert, þarna stendur að það skuli flytja á ákveðinn stað.

Það hefði auðvitað verið hægt, og það var lengri leiðin að verkefninu — netöryggissveitin er auðvitað rekin fyrir tekjur sem Póst- og fjarskiptastofnun fær af fjarskiptafyrirtækjunum. Ef tekin hefði verið sú ákvörðun að fara alla leið með það hefði tekjustofninn þurft að flytja líka. Það var hið flókna í þættinum. Það þarf að rýna það núna og svo getur vel verið að á einhverjum tímapunkti, þegar netöryggissveitin er ekki lengur bernsk eins og hún er í í dag, verði það niðurstaðan að þessi starfsemi skuli vera hluti af almannavarnastarfsemi landsins, ekki einvörðungu og endilega byggð á þjónustugjöldum. Þá getur starfsemin verið hluti af uppbyggingu öryggis almannavarna í landinu án þess að hún krefjist þess endilega að vera háð þjónustutekjum frá fjarskiptafyrirtækjum. Það er önnur umræða og krefst kannski aðeins þroskaðri reynslu af þessu öllu saman.

Virðulegur forseti. Ég tel og árétta að þetta er afar mikilvægt fyrir okkur. Ég vonast innilega til þess að nefndin klári verkefnið (Forseti hringir.) og komi því í þann farveg að tryggja megi að þessi mál séu í eins góðum farvegi (Forseti hringir.) og mögulegt er, vegna þess að reynslan af (Forseti hringir.) atvikinu sem kom upp í nóvember kallar á ákveðnar breytingar.