143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

staðan á leigumarkaði.

[10:39]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka enn á ný fyrirspurnina. Það er verið að fara yfir skuldastöðu þeirra leigufélaga sem eru hjá Íbúðalánasjóði. Það er hins vegar mjög mikilvægt að hafa það í huga að aðstaða þeirra er mjög mismunandi. Það er líka mikilvægt að hafa í huga að í stjórnarsáttmálanum og í loforðum beggja stjórnarflokka var talað um mikilvægi þess að styðja við heimilin, leiðrétta verðtryggð lán, og það erum við að gera. Hins vegar erum við að gera meira en það. Eins og hv. þingmaður veit ósköp vel þá er í tillögum sem liggja núna fyrir þinginu leið til að leggja til hliðar, í séreignarsparnaðinum, líka fyrir þá sem eru á leigumarkaðinum. Ég benti einmitt í umræðunni á hugmynd sem kom frá hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur um það hvort möguleiki væri að gera enn frekari breytingar á því þannig að leigjendur gætu hugsanlega notað séreignarsparnað sem tryggingu fyrir leigu í framtíðinni.

Það er verið að huga að þessu. Það er líka verið að fara mjög vel yfir samspil vaxtabóta og húsaleigubóta og hvernig sé best að koma því fyrir.(Forseti hringir.) Ég ítreka að ætlunin er að tillögurnar liggi fyrir í lok apríl.