143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

styrkir til menningarminja.

[10:47]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langar að beina fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra varðandi styrkveitingar til menningarminja. Ég þakka fyrir ítarleg svör sem ég hef fengið frá ráðuneytinu en þau vekja upp margar spurningar. Mig langar að tæpa á tveimur atriðum.

Ég les það út úr svarinu sem ég fékk síðast að hæstv. ráðherra hafi legið á að veita þessa styrki vegna þröngs tímaramma þar sem ráðherra hafði aðeins nokkra mánuði til að nýta þennan fjárlagalið, eða eins og hæstv. forsætisráðherra orðaði það í Kastljóssviðtali, með leyfi forseta:

„Þetta fjármagn, ef því hefði ekki verið útdeilt á þennan hátt, hefði bara dottið upp fyrir.“

Ég vil biðja hæstv. ráðherra að útskýra þessa tímaþröng. Ég skil það þannig að ef pólitískur vilji hefði verið til að setja peninga í húsafriðunarverkefni hefði verið eðlilegra að fella þennan lið niður á fjáraukanum 2013 og setja hann svo inn á árinu 2014. Ég skil það þannig ríkið eigi þann pening sem það eyðir ekki til góða, að það geti eytt honum á næsta ári ef vilji er fyrir því.

Síðan vil ég líka koma inn á þær aðferðir sem beitt var við útdeilingu og ég set stórt spurningarmerki við. Það kemur fram í svarinu að styrkveitingar til verkefna af þessu tagi verði ávallt í eðli sínu matskenndar. Það er kannski eitthvað til í því en það er nákvæmlega ástæðan fyrir því að sjóðir sem veita styrki fara eftir faglegum verklagsreglum, búa til eitthvert matskerfi og gera tilraun til að meta verkefnin og þá þætti sem skipta máli þannig að úthlutunin verði fagleg og umsóknir séu á jafnræðisgrunni. Umsókn, kostnaðaráætlun og þess háttar er síðan jafnvel metið, en eins og ég skil það voru engar umsóknir þannig að ég veit ekki alveg hvaðan kostnaðaráætlunin kom.

Ég spyr því að tvennu. Af hverju þessi flýtir og af hverju ekki að setja þetta fjármagn í fagsjóðina og deila peningum út úr fagsjóðunum, t.d. húsafriðunarsjóði og safnasjóði?