143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

styrkir til menningarminja.

[10:53]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég er ekki bara þeirrar skoðunar að fjárlagaliður geti dottið upp fyrir, hann gerir það ef hann er ekki framlengdur. Hv. þingmaður spyr hvers vegna þetta hafi ekki verið sett í einhverja fagsjóði. Það mætti eins spyrja: Hvers vegna voru þessir peningar ekki settir í heilbrigðisþjónustuna eða menntakerfið eða eitthvað annað? Það eru ótal verkefni sem ríkisvaldið þarf að leysa og það skortir fjármagn.

Þessir peningar voru settir í atvinnuskapandi verkefni af síðustu ríkisstjórn og ástæðan fyrir því að ég get um það sérstaklega er að hv. þingmaður hefur í fyrirspurnum sínum um þessi mál látið eins og þetta sé eitthvað alveg nýtt sem núverandi ríkisstjórn eða ráðherrar hafa fundið upp. Hér er um að ræða að verið er að reyna að skapa atvinnu vítt og breitt um landið á þann hátt að sem flest störf verði til, bæði í vinnu við verkefnin sjálf og svo í framhaldinu, og þetta hefur reynst mjög heppileg leið til þess.

Það er svo alltaf álitamál varðandi hverja einustu krónu sem ríki útdeilir í hvaða verkefni þær eiga að fara en atvinnuástand og mikilvægi atvinnuuppbyggingar á landsbyggðinni er að mínu mati a.m.k. mikilvægt mál, hvort heldur sem er í kjördæmi (Forseti hringir.) okkar hv. þingmanns eða í öðrum kjördæmum.