143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

efnahagsstefnan og EES-samningurinn.

[11:01]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vildi spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort meginþættir í efnahagsstefnu nýrrar ríkisstjórnar gangi upp í veruleikanum. Sem kunnugt er hefur ríkisstjórnin lagt fram í þinginu tillögu um að slíta aðildarviðræðum við Evrópusambandið og það er afstaða ríkisstjórnarinnar að byggja á öðrum hlutum efnahagsstefnu sinnar, þá í meginatriðum því að hafa hér sem gjaldmiðil íslenska krónu með þeim takmörkunum á viðskiptum sem Seðlabankinn telur að þurfi að fylgja henni varanlega og hins vegar á EES-samningnum sem helsta viðskiptasamningi okkar.

Nú er spurningin: Gengur þetta upp? Getum við haft frjálst flæði á fiski en ekki á fjármagni? Kannaði ríkisstjórnin það áður en hún tók þetta örlagaríka skref í meginþáttum efnahagsstefnunnar hvort íslenska krónan með varanlegum viðskiptatakmörkunum standist samninginn um Evrópska efnahagssvæðið? Hefur hún leitað eftir því við ESA hvort við höfum í hendi samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og hinn tollfrjálsa aðgang fyrir útflutningsafurðir okkar að helstu mörkuðum okkar sem honum fylgir ef við byggjum varanlega á krónu, ekki í höftum sannarlega en með margvíslegum viðskiptatakmörkunum? Hefur verið spurt um þetta lykilatriði um hina nýju efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar? Gengur plan B upp? Getum við haft íslensku krónuna með viðskiptatakmörkunum og samt haldið EES-samningnum og tollfrjálsum aðgangi fyrir helstu útflutningsafurðir okkar?