143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

mat á umhverfisáhrifum.

467. mál
[11:38]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo ég skýri þá tengingu tengist Árósasamningurinn kannski ekkert þessu frumvarpi hér sérstaklega. Það sem ég var að nota aðeins tímann til að benda á eru mál sem ég mælti fyrir snemma í haust og lúta líka að breytingum á sömu lögum nr. 106/2000. Ég vildi benda á að ég mundi taka það upp í hv. nefnd að það mál lægi inni. Ef lögin eru opin er ekki ólíklegt að við ræðum þær breytingar líka og þar er ég að leggja til í raun og veru að frjáls félagasamtök fái heimild til að óska eftir endurskoðun á matsskýrslum í anda Árósasamningsins, sem við höfum fullgilt, sem snýst um að auka þátttöku almennings í ákvörðunum sem lúta að umhverfismálum og hins vegar snýst það mál um að stytta tímann þar til hægt er að óska eftir endurskoðun á matsskýrslunni úr tíu árum í sjö. Það var fyrst og fremst það sem ég var að segja, að ég mundi aðeins ræða það í nefndinni hvort vilji væri til að taka þetta saman í einni ferð.

Hvað varðar hitt var ég kannski ekki að ræða sérstaklega þetta mál, þessa EES-innleiðingu. Hins vegar hef ég orðið vör við það, bæði í minni nefnd og öðrum, að það eru allmörg EES-mál sem liggja fyrir núna, mörg sem hafa komið til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og mjög mörg eru endurflutt, vissulega sum með breytingum eins og hér, ég fór yfir breytinguna á C-flokknum, en sum lítið breytt, úrgangsmál til að mynda sem vonandi hv. umhverfis- og samgöngunefnd er búin að láta afgreiða út í kvöld. Maður veltir því fyrir sér hvað hafi valdið því að þau hafi tafist svo mikið á síðasta og jafnvel þarsíðasta þingi, hvort þau hafi verið tafin ekkert af sérstökum tilgangi, a.m.k. ekki öll þeirra.