143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

mat á umhverfisáhrifum.

467. mál
[11:40]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka málefnalega umræðu. En varðandi þessa síðustu umræðu, um að hér sé verið að endurflytja mörg mál og þar með þetta, þá er auðvitað verið að gera það en þau koma hingað alltaf allverulega breytt. Vegna orða hv. þm. Helga Hjörvars, hvort það væri bara út af þessu eina litla atriði í þessu frumvarpi, þá er þetta eina litla atriði er varðar C-flokkinn ástæða fyrir því að þetta frumvarp er til. Það er vegna athugasemda um C-flokkinn sem frumvarpið er til. Áður var það þannig gert að fara átti allt aðra leið sem við sem sátum hér á þingi mörg, sveitarfélögin og fleiri aðilar, töldum allt of íþyngjandi og flókna vegna þessara litlu framkvæmda. Þetta eru sannarlega litlar framkvæmdir. Þetta gæti verið uppsetning á leirbrennsluofni í bílskúr o.s.frv. Þetta eru sannarlega litlar framkvæmdir.

Þegar við erum með sveitarfélög sem gefa framkvæmdarleyfið þá vildi ég spyrja hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur hvort hún teldi að þetta sé þeim eitthvað meira um megn en að gefa framkvæmdarleyfi í mun stærri framkvæmdum þegar hér kemur til. Ég held ekki. Ég held að þetta sé mjög skynsamleg leið. Hún er í beinum tengslum við þær umsagnir sem komu fram hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Þetta er einföldun á regluverki, þetta verður fljótari afgreiðsla, Eftirlitsstofnun ESA gerir engar athugasemdir við það, það þarf bara að vera skýr málsmeðferð. Bretland hefur til að mynda farið þessa leið, þykist ég geta vitnað rétt til.

Að lokum vil ég taka undir það sem kom fram hjá hv. þm. Ólafi Þ. Gunnarssyni, það er alveg rétt að það sem unnið hefur verið áður nýtist í þessari vinnu þrátt fyrir að hér sé farin önnur leið. Menn eru búnir að fjalla um þessar umsagnir og hvað þurfi að gera til að breyta frumvarpinu. Ég vonast til að nefndin taki þetta bara hratt til sín. Við eigum möguleika á að klára þetta í vor ef menn vilja og það er nægur tími til.