143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

mat á umhverfisáhrifum.

467. mál
[11:59]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágæta yfirferð. Það eru tvö atriði sem mig langar til að biðja hann að reifa aðeins betur. Það er í fyrsta lagi það sem hann nefndi hér, þ.e. þessi ákvörðun um matsskyldu framkvæmda í C-flokki, að sú ákvörðun verði í höndum sveitarfélaganna. Það er sannarlega, eins og fram hefur komið í andsvörum frá ráðherra, eina breytingin sem hefur verið gerð á málinu frá síðasta kjörtímabili.

Ég held að í raun kristallist hér mjög mikilvæg togstreita í samfélaginu, þ.e. togstreitan um völd og áhrif sveitarfélaga og stöðu þeirra gagnvart ríkisvaldinu og hins vegar það í hvers konar færum sveitarfélögin eru til að axla þær skyldur. Þar kemur inn staða sveitarfélaganna, hversu fá þau eru og sum þeirra eru í vanda að því er varðar stóra og sérstaklega tæknilega löggjöf og tæknilega þætti. Þarna er um að ræða þessa þungu og mjög svo EES-legu skipulagslöggjöf sem er mjög tæknileg og því eru þar ákveðnar hættur á ferð þegar um er að ræða sveitarfélög sem hafa ekki yfir að ráða stórum skipulagsdeildum, skipulagsskrifstofum o.s.frv. til að koma löggjöfinni síðan til framkvæmda.

Sjálf hef ég mikið hugsað um það að þarna séu fyrir borð bornar meginreglur um jafnræði og vandaða málsmeðferð, þ.e. að við séum einfaldlega ekki að tryggja jafnræði borgaranna að því er varðar ákvarðanatöku á þessu mikilvæga sviði sem er þróun og framvinda byggðar og ekki síður atvinnulífs. Mig langar því að biðja hv. þingmann að reifa sína sýn á því hvaða hættur eru beinlínis hér á ferð vegna þess að gríðarlega mikilsverðir hagsmunir eru í húfi.