143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

mat á umhverfisáhrifum.

467. mál
[12:06]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek undir áhyggjur þingmannsins af nærþrýstingnum og auðvitað eiga menn óhægara um vik að verjast honum eftir því sem nándin er meiri og þá heldur í smærri sveitarfélögunum.

Það er áhyggjuefni að við sköpum almennt það umhverfi að menn leiti frekar með þessa hluti inn í lítil sveitarfélög gagngert vegna þess að auðveldara sé að komast í gegnum málið.

Hv. þm. Kristján L. Möller flutti hér á árum áður ítrekað mikilvægt mál í þessu sambandi sem ég var meðflutningsmaður að og hef eindregið stutt alla tíð. Ég er þeirrar skoðunar að beita eigi lögþvingunum til að fækka sveitarfélögum þannig í landinu. Mál séu einfaldlega þannig vaxin. Menn geta út af fyrir sig ákveðið hverjum þeir vilja sameinast eða hvernig en ég tel að til þurfi að vera ákvæði um lágmarksíbúafjölda og miklu hærri en þau sem við höfum nú.

Hvað varðar meinbægnina, þegar þetta mál var stöðvað af stjórnarandstöðunni á síðasta kjörtímabili, þá hefur hún að minnsta kosti verið til staðar ef marka má orð hæstv. ráðherra hér áðan. Hann sagði í öðru orðinu að þetta hefði verið mikið meginatriði sem þetta hefði strandað á, þ.e. þessi C-flokkur og stjórnsýslan hjá sveitarfélögunum, en í hinu orðinu, þegar hann varðist gagnrýni á það að sveitarfélögin væru kannski ekki í færum til að taka við þessu, sagði hann að þetta væru bara smámál, það væri leirbrennsluofn og einhver álíka viðamikil mál sem féllu undir þennan C-flokk. Ef það er ekki viðameira en einhver leirbrennsluofn, eins og ráðherrann sagði, þá er náttúrlega óskiljanlegt að lögfesting málsins í heild hafi verið stöðvuð á ekki stærra atriði og getur ekki talist annað en meinbægni.