143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

staða hafrannsókna.

[13:54]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég hjó eftir því í máli hæstv. ráðherra að hann virðist vera að leggja til að farnar verði nýjar leiðir til að fjármagna hafrannsóknir á Íslandi. Þegar hann ræddi hvernig við ætlum að standa að haustrallinu sem er fram undan gat ég ekki betur skilið hæstv. ráðherra en svo að það ætti að standa straum af kostnaði útgerða sem taka þátt með því að veita þeim sérstakan rannsóknarkvóta, þ.e. að skipin mættu eiga og selja þann afla sem þau hafa umfram það sem þau ella hafa til þess að geta kostað rannsóknirnar.

Þetta er í sjálfu sér ágætisaðferð, hún var farin þegar við vorum að þróa karfaveiðarnar á sínum tíma en það var fyrir þann tíma þegar við settum á veiðigjald. Þegar við ræðum þessi mál og fjársvelti og fjárskort megum við ekki gleyma því að einn aðaltilgangur veiðigjaldsins á sínum tíma var einmitt að afla fjár til að standa undir hafrannsóknum.

Nú er almenna veiðigjaldið fast að 5 milljörðum kr. að ég held og sérstaka veiðigjaldið er aðrir 5 milljarðar kr. Andspænis því er mjög erfitt að fallast á að fjársvelti stofnunarinnar sé í reynd ásættanlegt. Ég held að framferði af þessu tagi sé það sama og að éta útsæðið sitt. Það voru upplýsingar fyrir mig að heyra hér í umræðunni að þetta veldur meðal annars því að menn ætla ekki að fara í loðnurannsóknir í haust. Eru menn þá bara búnir að gefa þann stofn upp á bátinn eða hvað? Sömuleiðis ætla menn ekki að fara í rannsóknir á úthafsrækju.

Ég tek svo alveg sérstaklega undir það sem hv. þm. Ásmundur Friðriksson sagði um miðsjávarteppið sem svo er kallað, 50–60 tegunda teppið sem er mjög þykkt norður og vestur og reyndar suðvestur af landinu. Ég hef lagt fram einar sjö eða átta þingsályktunartillögur um rannsókn á þessum stofnum. Ef svo fer að makríllinn hverfi héðan munum við þurfa að (Forseti hringir.) sækja í þessa stofna til að vinna upp nýja atvinnugrein innan sjávarútvegsins til framtíðar.