143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

mat á umhverfisáhrifum.

467. mál
[14:03]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (frh.):

Hæstv. forseti. Við ræðum mat á umhverfisáhrifum, frumvarp til að uppfylla skilyrðin samkvæmt EES-samningi. ESA hefur gert athugasemdir við framkvæmdina á þeim samningi og hér er verið að ræða það að komi fleiri framkvæmdir verði þær tilkynningarskyldar til ákvörðunar um matsskyldu og almenningi gefin aukin tækifæri til að afla sér upplýsinga og gera athugasemdir við umhverfismat. Ég var búinn að ræða það í fyrri hluta ræðu minnar hversu miklu máli það skipti að þessi mál næðu fram að ganga og að þannig yrði líka búið um að félög sem berjast fyrir náttúruvernd og umhverfismálum hafi möguleika á því að sinna hlutverki sínu og líka íbúasamtök og aðrir sem fylgjast með framkvæmdum á vegum sveitarfélaganna.

Síðan vakti ég athygli á því að fram hefðu komið athugasemdir frá íbúum til dæmis í Vesturbyggð þar sem vinna hefur gengið illa á Vestfjarðavegi 60, sem sagt að finna vegstæði, einkum í gegnum Teigsskóg. Þar kom fram mikil gagnrýni frá íbúunum eftir að sú leið sem þar hafði verið ákveðin eða gerð tillaga um hafði sætt gagnrýni í umhverfismati, en engu að síður fór það mál fyrir dómstóla og þar byggði Vegagerðin mál sitt á því að það væri umferðaröryggismál að leggja veginn nærri sjó, þ.e. hafa láglendisveg, en þá kom í ljós að í lögunum um umhverfismat er ekkert ákvæði um að það sé eitthvað sem eigi að meta, þ.e. umferðaröryggið. Þetta er sérstaklega athyglisvert miðað við að gerðar voru fyrir nokkrum árum kröfur um það að vegir og vegstæði færu í umhverfismat, sem ég tel eðlilegt og sjálfsagt. Ég geri það nú að tillögu minni að við meðhöndlun nefndarinnar á þessu máli verði ákvæði um umferðaröryggi bætt inn í umhverfismat þannig að ekki þurfi að vísa málum frá eða hafna þeim þar sem umferðaröryggi sé ekki í lögum um umhverfisáhrif, þetta verði a.m.k. skoðað. Íbúar á svæðinu lýstu því, eftir að þetta kom fram af því að málið var kært út af skóginum, það kom aldrei til úrskurðar hvort svæðið sem slíkt hefði slíkt náttúruverndargildi að réttlætanlegt væri að banna vegagerð ofan við skóginn eins og þarna voru tillögur um, og menn veltu fyrir sér: Er það virkilega þannig að mannfólkið sé eina dýrategundin sem ekki kemur til umhverfismats?

En hafandi sagt það komum við líka inn á það sem sagt var fyrr í umræðunni og ég vakti athygli á að það skiptir gríðarlega miklu máli að langtímasjónarmið ríki varðandi allt umhverfismat og allan undirbúning á framkvæmdum og ekki hvað síst í vegagerð. Það þarf að skapa Vegagerðinni tækifæri til að vinna vinnu sína langt fram í tímann þannig að hægt sé að undirbúa landeigendur, hægt sé að ræða við fólk um vegstæði, velja bestu leiðir, sneiða hjá því að umhverfisáhrifin verði mikil o.s.frv. Í umræðunni var Kolgrafafjörðurinn nefndur, Gilsfjörðurinn var líka nefndur, en Kolgrafafjörðurinn er kannski ágætt dæmi um það að menn vita í raunveruleikanum ekkert hvað er að gerast í náttúrunni þegar þar undir brýrnar fer mikið magn af síld og þau vandræði urðu sem fólust í því að súrefnisskortur varð og síldin drapst inni í firðinum og mikil umhverfisspjöll urðu af því. Það vandamál tókst að leysa mjög vel í það skiptið en þetta mál vofir alltaf yfir og menn spyrja hvort það sé vegna þess að opið á Kolgrafafirðinum sé allt of lítið, gegnumstreymið eða straumarnir séu þannig að ekki sé nægjanlegt streymi út og inn undir brýrnar, það valdi þessu.

Ég mæli með að frumvarpið verði samþykkt og til bóta sé að herða kröfurnar en vek athygli á því að það þarf þá líka að gera þetta þannig að menn geti forunnið málin, almenningi gefin tækifæri til að taka þátt í umræðunni, auk félaga sem berjast fyrir umhverfisvernd og tryggja þannig að við náum betri vinnu í sambandi við stærri framkvæmdir og þar með verði minni áhrif á umhverfið.