143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

mat á umhverfisáhrifum.

467. mál
[14:11]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Við höfðum einmitt rætt það töluvert, af hverju strandaði þetta mál á sínum tíma? Í rauninni höfum við svo sem ekki skýr svör, en það sem gerðist á síðasta kjörtímabili var að menn voru kannski með 20 til 40 mál sem voru tilbúin út úr nefndum, afgreidd án ágreinings eða með mjög litlum ágreiningi, á fundum þar sem stjórnarandstaðan sagði: Þessi mál fara ekki í gegn. Það var tilviljunarkennt, ég man jafnvel eftir því að við afgreiðslu rétt fyrir jól sagði einn þingflokksformaður: Ja, veljið bara sjö mál. Það voru um 40 mál meira og minna ágreiningslaus sem fengu ekki að fara í gegn, ég kalla þetta bara fíflalæti. Þetta er til vansa. Það er verið að gera grín að mönnum, þeim sem vinna frumvörpin, þeim sem senda umsagnir, fara í vandaða umfjöllun, hafa skoðanir á þeim og koma þeim á framfæri, nefndarmönnum sem eyða ómældum tíma í að finna bestu lausnirnar. Síðan strandar það í lokin í þinginu. Það er auðvitað vegna þess að menn setjast ekki niður nógu snemma til að fara nákvæmlega yfir hvaða mál þurfi að fara í gegn og hvaða mál megi fara í gegn og kippa þá til hliðar þeim málum sem eru í hvað mestum ágreiningi til að tryggja að það tefji þá ekki afgreiðslurnar á lokastigi.

Varðandi þessa flokka sem eru býsna fróðlegir, ég verð að viðurkenna að ég var að lesa þá yfir hér áðan, er athyglisvert að sjá hvað fellur undir mat á umhverfisáhrifum. Ég hef ekki myndað mér skoðun á því hvort þar sé allt inni sem þyrfti að vera eða einhverju ofaukið. Ég vil taka fram að ef menn ætla að hafa áhrif akkúrat á það sem kemur sem EES-gerð þarf auðvitað að gera það á byrjunarstigi. Þar hafa Íslendingar verið mjög veikir, þ.e. þegar verið er að undirbúa lagasetningu á hverjum tíma þurfum við að eiga aðkomu að því. Og þetta hafa verið rökin m.a. frá mér og mínum flokki að rétt sé að skoða aðild að ESB því að þá erum við við borðið í staðinn fyrir að taka bara við 80–90% af lögum ESB án þess að tækifæri sé til að fjalla um þau þegar verið er að undirbúa þau.