143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

mat á umhverfisáhrifum.

467. mál
[14:13]
Horfa

Edward H. Huijbens (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Þau eru skýr og greinargóð eins og við var að búast. Hv. þingmaður nefndi að við kæmum ekki með nógu öflugum hætti að mótun frumvarpa og laga frá EES nógu snemma. Þurfum við að efla sendinefndir okkar eða fulltrúa okkar þar inni eða fara í einhvers konar endurskoðun á þeim samningi gagnvart því hvernig við getum komið að mótun tilskipana á fyrri stigum? Það er eitt sem ég velti fyrir mér. Eru sendinefndir okkar of veikar eða sendifulltrúar okkar? Eða hafa þeir ekki nógan stuðning, nægt fjármagn eða nægan mannskap? Eða hvernig lítur það annars út nákvæmlega?

Hvað varðar flokkana sem við vorum að ræða er einmitt margt forvitnilegt þar. Ég hvet hv. þingmenn til að kynna sér vandlega hvernig raðað er inn í þá flokka og ég mun koma inn á það í ræðu á eftir hvernig það allt saman lítur út. Þar kennir margra forvitnilegra grasa og margt sem kemur kannski á óvart, til að mynda hvað varðar geymslu á kjarnorkuúrgangi og ýmsu öðru sem skýtur skökku við þegar nánast öll sveitarfélög á landinu nema þrjú hafa lýst sig sem kjarnorkuvopna- og kjarnorkulaus svæði. Það er áhugavert að sjá þetta á listanum en á sér svo sem sínar eðlilegu skýringar þar sem þetta er EES-tilskipun meira eða minna.

Hvað varðar fíflalætin sem voru á síðasta kjörtímabili, sem virðist hafa einkennt stjórnarandstöðuna á þeim tíma og miðað við þá nasasjón sem ég hafði á þeirri umræðu allri get ég svo sem tekið undir það — virðist það þá ekki hafa strandað á neinu sérstöku nema því að menn hafa nánast handahófskennt valið þau frumvörp til að standa í andstöðu gegn? Er það rétt hjá mér, hv. þingmaður?