143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

mat á umhverfisáhrifum.

467. mál
[14:17]
Horfa

Edward H. Huijbens (Vg):

Virðulegi forseti. Í kjölfar andsvara og þeirra ræðna sem fluttar hafa verið hér vildi ég blanda mér í þessa umræðu um frumvarp til laga um breytingar á lögum um mat á umhverfisáhrifum og síðari breytingu, sem nú er lagt fyrir í þriðja sinn á 143. löggjafarþingi en hefur komið fyrir áður.

Frumvarpið er samið af starfshópi sem falið var að vinna frumvarp um breytingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum, en starfshópurinn var skipaður í byrjun sumars 2011. Starfshópurinn átti að gera frumvarp til laga um breytingar á lögum um mat á umhverfisáhrifum þar sem hafðar væru til hliðsjónar athugasemdir Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, sem bárust umhverfisráðuneytinu vegna laga um mat á umhverfisáhrifum auk tillagna á grundvelli reynslu af framkvæmd laganna.

Athugasemdirnar og frumvarpið byggja á töluverðu evrópsku dómafordæmi sem ítarlega er farið yfir í frumvarpinu og athugasemdum þar við. Það er þetta dómafordæmi sem byggt er á sem gerir yfirbragð frumvarpsins í fyrsta lagi eins sterkt og það er, þ.e. gerir frumvarpið sem slíkt eins vel útfært og vandlega rökstutt og það er, en hins vegar líka eins evrópskt og raun ber vitni.

Við komum hins vegar í rauninni ekki að mótun þessa frumvarps á neinn hátt, eða eins og hv. þm. Helgi Hjörvar orðaði það; við fengum frumvarpið svo gott sem sent í pósti. Það er ekki gott og auðvitað þurfum við að huga að því hvernig við getum komið betur að mótun svona frumvarpa sem skipta okkur jafn miklu máli og lög um mat á umhverfisáhrifum sem varða beinlínis stjórnsýslu, bæði ríkis og sveitarfélaga á hverjum stað og hverjum tíma. Til þess að svo megi verða þarf auðvitað að efla mannafla okkar, styrk og fjárveitingar þannig að við getum komið að mótun og gerð frumvarpa og laga sem koma utan frá, frá EES, en ekki síst, eins og fram kom í andsvari rétt áðan, til að móta langtímasýn í hverjum málaflokki sem gefið getur okkur skýra sýn á þau samningsmarkmið og þau markmið sem við höfum þegar undir eru einstakir málaflokkar í tilfelli einstakra lagasetninga eða reglugerða.

Í þessu frumvarpi eru gerðar tillögur að framkvæmdum þeim sem eru matsskyldar samkvæmt 5. gr. laga og tilkynningarskylda til ákvörðunar um mat á umhverfisáhrifum samkvæmt 6. gr. Það á að flokka þessar framkvæmdir í þrjá flokka; A, B og C. A er sá flokkur þar sem fortakslaust skal fara fram mat á umhverfisáhrifum, en B- og C-flokkarnir eru matskenndir. Ég vil sérstaklega leggja áherslu á og vekja athygli á flokki C, sem er nýr í þessu samhengi. Sá flokkur leiðir til þess, verði frumvarpið að lögum, að fleiri framkvæmdir verða tilkynningarskyldar til ákvörðunar um matsskyldu en samkvæmt núgildandi lögum. Það er fyrst og fremst í gegnum þennan C-flokk. Það mun leiða til upplýstari ákvörðunartöku um fleiri framkvæmdir hvað varðar áhrif á umhverfið, en einnig mun það gefa almenningi aukin tækifæri til að afla sér upplýsinga um fleiri framkvæmdir en verið hefur til þessa þar sem fleiri framkvæmdir eru tilkynningarskyldar og þar með auglýstar. Breytingin mun hafa í för með sér fjölgun tilkynninga til ákvörðunar um matsskyldu frá framkvæmdaraðilum þar sem framkvæmdir í C-flokki eru hrein viðbót.

Munurinn, þ.e. það sem hefur breyst og komið hefur fram í fyrri ræðum, er sá að framkvæmdir eða ákvarðanir um matsskyldu framkvæmda í flokki C eiga að vera í höndum sveitarfélaga. Er það til komið vegna athugasemda Sambands íslenskra sveitarfélaga um frumvarpið í meðförum umhverfis- og samgöngunefndar á 141. löggjafarþingi. Það er mjög mikilvægt að hafa í huga. Þá þarf að velta fyrir sér getu sveitarfélaga til þess að móta langtímasýn í ólíkum málaflokkum er varða óhjákvæmilega allir umhverfið. Það er númer eitt, geta sveitarfélaganna til þess að geta mótað þessa sýn til þess að geta haft einhvers konar markmið sem gera þeim kleift að leggja mat á hvað er matsskylt og hvað er framkvæmt. Stóra sýnin hjá sveitarfélögunum í umhverfismálum og í umhverfisstefnu og annað slíkt er auðvitað mjög margþætt, t.d. að setja upp og koma saman Staðardagskrá 21 eða einhverju álíka. Það er ekki endilega á færi allra sveitarfélaga með sannfærandi hætti.

Hér er ég að hugsa um það sem fram hefur komið í fyrri ræðum, að sveitarfélögin eru einfaldlega mjög mismunandi að stærð, þau eru misvel í stakk búin til þess að móta sér sýn og stefnu, til að mynda varðandi umhverfismál og umhverfisáhrif af framkvæmdum og þar með hvað þau telja mikilvægt að falli undir tilkynningarskyldu eða matsskyldu um framkvæmdir hverju sinni.

Með því að bæta við C-flokki, sem er kominn í hendur sveitarfélaganna með þessum hætti, er líka orðið frekar óljóst fyrir leikmenn, sem koma að því að kalla eftir ákvörðunum um matsskyldu framkvæmda, hvert þeir eiga að snúa sér. Það fer að verða óskýrt hvernig það er gert, hver á að gera hvað, hver sinnir hverju og hvert beina á tilmælum eða óskum.

Fyrst ég er að ræða um C-flokk þá eru gerðar tillögur að 40 mismunandi framkvæmdum í frumvarpinu sem falla í þann flokk. Það eru alla vega 40 tegundir framkvæmda sem lagt er til að sveitarstjórn taki ákvörðun um flokkun á og er það háð framkvæmda- eða byggingarleyfi samkvæmt skipulagslögum eða lögum um mannvirki ef frá er talið leyfi til framkvæmda sem Mannvirkjastofnun veitir. Sveitarstjórn fer því með málsmeðferð er varðar matsskyldu framkvæmda í C-flokki sem sveitarstjórn eða starfsmenn sveitarfélaga gefa út leyfi fyrir, svo sem framkvæmdaleyfi eða byggingarleyfi. Það kemur aftur inn á það sem ég sagði um getu sveitarfélaganna til þess að standa í því, ekki einungis þá til að móta langtímasýn og hafa stefnumótandi langtímasýn í t.d. málaflokk um umhverfismál, heldur og líka framkvæmdagetu sveitarfélaga á hverjum tíma til þess að leggja grunn að því hvað telst matsskylt og hvað ekki. Það þurfa nefnilega líka að fylgja því ýmis gögn ef fólk óskar eftir mati á umhverfisáhrifum í C-flokki. Það þurfa að fylgja því gögn, alls ekki eins ítarleg eða eins fjölþætt og í hinum flokkunum. Tiltekið er nákvæmlega í frumvarpinu hvað skal fylgja með, en engu að síður þurfa þar að fylgja nokkur gögn.

Það eru sem sagt 40 mismunandi framkvæmdir sem falla í C-flokk. Ef við skoðum aðeins nánar þessar framkvæmdir og köfum aðeins ofan í þennan lista getum við séð eitt sem ég vil draga sérstaklega fram, það er efnistaka og/eða haugsetning á landi eða úr hafsbotni þar sem áætlað er að raski minna en 25.000 m² svæðum ef efnismagnið er minna en 50.000 m³. Ég vil sérstaklega vekja athygli þingheims á því. Þetta er framkvæmd sem fellur í C-flokk. Kannski finnst fólki það ekkert voðalega merkilegt, þetta eru 25.000 m² eða 50.000 m³ af efni, það er smálegt sem þarf ekki endilega að fara í stórkostlega tilkynningu á eða umhverfismat um. Þar af leiðandi er það í C-flokki.

Það breytist ef við setjum það í samhengi við það sem fram kemur í frumvarpinu í II. viðauka, þ.e. hvernig II. viðauki breytist.

Í frumvarpinu segir, með leyfi forseta:

„Efnistaka og/eða haugsetning á landi eða úr hafsbotni þar sem áætlað er að raska 25.000 m² svæði eða stærra eða efnismagn er 50.000 m³ eða meira. Efnistaka og/eða haugsetning þar sem fleiri en einn efnistökustaður og/eða haugsetningarstaður vegna sömu framkvæmdar og á sama svæði ná samanlagt yfir 25.000 m².“

Tilfellið er að hér er verið að styrkja löggjöf og styrkja getu okkar til mats á umhverfisáhrifum þegar kemur að efnistöku um landið. Efnistaka á Íslandi hefur nefnilega verið vandamál, ekki vegna þess að okkur vanti efni heldur vegna þess hversu víða það er tekið og hversu dreift það er. Það er engin sýn mótuð á grunni sveitarfélaga eða sambands sveitarfélaga að neinu marki sem tekur á efnistöku heildstætt.

Í svæðisskipulagi er hins vegar byrjað að taka á þessu að nokkru leyti. Það er ákaflega mikilvægt vegna þess að svona framkvæmd hefur verið með þeim hætti hingað til að passað hefur verið upp á að svæði sem núna eru komin undir C-lið í þessu frumvarpi en voru áður þannig að ekki þurfti að tilkynna um þau, mega ekki ná samanlagt yfir meira en 25.000 m². Framkvæmd efnistöku til þessa hefur nefnilega verið þannig að tekin eru svæði einmitt undir þessu hámarki til tilkynningarskyldu, og dreift á marga staði sem hefur valdið í raun miklu meiri spjöllum á umhverfi en þörf er á. Þetta frumvarp mun taka á því.

En ástæðan fyrir því að menn hafa tekið efni úr öllum áttum og farið á marga litla staði fremur en einn stóran efnistökustað er sú að þeir vilja losna við að fara í umhverfismat eða að þurfa að tilkynna um framkvæmdir sínar, ástæðan varðar auðvitað hagsmuni sveitarfélaganna hverju sinni. Það er dýrt. Það er fyrirferðarmikið fyrirtæki að fara í tilkynningu um mat á framkvæmdum og jafnvel að þurfa að meta þær framkvæmdir og fara sérstaklega í umhverfismat. Þess vegna hafa mörg sveitarfélög kosið að dreifa efnistökusvæðum sínum með þessum hætti. Það er auðvitað ekki gott.

Núna verður hins vegar gerð krafa um að tilkynna um efnistökuna þannig að sveitarfélögin geti ekki dreift efnistökusvæðunum á smærri svæði. Það er mjög mikilvægt og skiptir máli og þannig er þetta frumvarp ítarlegra, það mun bæta löggjöf um mat á umhverfisáhrifum, það mun styrkja löggjöf um mat á umhverfisáhrifum, en mögulega umfram getu sveitarfélaga til að takast á við mat á umhverfisáhrifum með sannfærandi hætti hverju sinni.

Ef við förum aftur í flokk framkvæmda, sem ég vil líka gera að umtalsefni í þessari ræðu, þá er ansi margt sem er áhugavert. Hér er til að mynda talin upp nýræktun skóga á allt að 200 hektara svæði, sem breytir fyrri landnotkun. Nú geta menn ræktað upp skóg, menn hafa náttúrlega ævinlega getað gert það, en þegar þeir ætla að setja upp skógræktarreit jafnvel undir 200 hekturum þarf að tilkynna um það núna. Það er í C-flokki. Efnistaka og haugsetning á verndarsvæðum er matsskylt hjá Skipulagsstofnun. Skipulagsstofnun kveður á um matsskyldu þar.

Ég er búinn að nefna efnistökuna hérna en það eru ýmsir aðrir flokkar. Ég nefndi stöðvar til vinnslu á geislavirkum úrgangi. Það er nú Skipulagsstofnunar að kveða um mat á því. En ef ég tek fleira úr C-flokknum má nefna leiðslu til bindingar koltvísýrings í jarðlögum utan verndarsvæða, það er tilkynningarskylt. Stöðvar sem eru allt að einn hektari að stærð til smíða og viðgerða á loftförum eru tilkynningarskyldar. Stöðvar til framleiðslu allt að 20 tonnum á dag af steypujárni eru tilkynningarskyldar í C-flokki. Og vindaflsstöðvar með minna en tveggja megavatta rafal eru tilkynningarskyldar í C-flokki. Einnig vatnsorkuver o.s.frv.

Það er sem sagt ansi margt undir núna sem er tilkynningarskylt og þarf að fara í gegnum ferli um tilkynningarskyldu og leggja fram gögn og efni. C-liðurinn mun því leggja töluverðar skyldur á herðar sveitarfélögunum og auka vinnu hjá þeim og eins og ég segi liggur fyrir utan A- og B-flokkinn sem eru þá á herðum Skipulagsstofnunar.

Þetta er dreifing á úrræðum, dreifing á mannafla og dreifing á krafti okkar til tveggja ólíkra aðila sem í mörgum tilfellum ynnu oft sömu hlutina og það er ekki voðalega góð hugmynd. Ég ætla þó ekki að gera neinn sérstakan ágreining um það. Sumir telja að þetta hafi verið sá ágreiningur sem á steytti á síðasta kjörtímabili, þ.e. að færa C-flokkinn yfir á hendur sveitarfélaganna. Mér finnst það ekki gáfulegt nema til komi breytingar á samsetningu sveitarfélaga og auðvitað stærð þeirra til þess að þau geti tekist á við þetta. Ekki finnst mér það síður misráðið vegna þess að þar er verið að dreifa mannskap, dreifa krafti, það er tvíverknaður þar sem þau gögn sem liggja til grundvallar mats- og tilkynningarskyldu í C-lið eru mikið til þau sömu og í B-lið og í A-lið, nema þar fylgja auðvitað fleiri og ítarlegri gögn með. Mér finnst það miður.

Til að undirstrika það sem máli skiptir í þessu samhengi er að frumvarpið kallar á langtímasýn í landnýtingu og skipulagi. Það kallar á langtímasýn vegna þeirra krafna sem gerðar eru um tilkynningu á matsskyldu. Það kallar því á langtímasýn í landnýtingu á skipulagi þar sem nú er verið að skýra ferli og setja í fastara form. Það þýðir þá að móta þarf þessa langtímasýn í landnýtingu og skipulagi. Hún þarf að komast á sterkara form. Hún þarf að hafa hærra lagalegt gildi. Ein leið til þess er að efla skipulagsstigið sem heitir Svæðisskipulag, og auðvitað þá vinnu sem er við landsskipulag núna. En vinna við svæðisskipulag þarf að komast á það form að hinar pólitísku ákvarðanir varðandi forgangsröðun í landnýtingu og skipulagi séu teknar á hverju svæði fyrir sig, sem kallar auðvitað á það að sveitarfélögin skipi fulltrúa í svæðisskipulagsnefndir sem hafa burði og getu til að leysa þau pólitísku ágreiningsmál sem eru í landnýtingu og skipulagi á hverju svæði fyrir sig. Það er ákaflega mikilvægt.

Svæðisskipulagið og svæðisskipulagsnefndir í samspili við landsskipulag og deiliskipulag og aðalskipulag sveitarfélaga eru það tæki sem hægt er að nota til þess að móta langtímasýn í landnýtingu og skipulag á landinu öllu.

Ég vil þó segja að ég mæli með samþykki á þessu frumvarpi. Það er heilt yfir gott að skerpa á framkvæmd mats á umhverfisáhrifum, herða upp á skipulagi og framkvæmd mats á umhverfisáhrifum. Ég mæli því með samþykkt þess, en með þeim fyrirvörum sem þarna hafa verið raktir, sem ég held að sé að minnsta kosti mikilvægt að hugleiða í þessu samhengi.