143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

mat á umhverfisáhrifum.

467. mál
[14:37]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get tekið undir með hv. þingmanni að mjög mismunandi er auðvitað hvernig sveitarfélög taka á þessu verkefni, þ.e. hvort þau fara í umhverfisvottun eða ekki, en ég held samt að reynslan sé að verða sú af Snæfellsnesinu og raunar hugmyndum annars staðar frá að það muni leiða til þess að fleiri sveitarfélög komi í kjölfarið og jafnvel heilu svæðin. Þannig hafa Vestfirðir unnið að því að marka sér sérstöðu með ákveðinni umhverfisvottun getum við sagt, þar sem menn setja sér markmið um hvernig nýta eigi náttúruna og í og með fær svæðið líka alþjóðlegan stimpil sem vekur áhuga þeirra sem koma hingað sem ferðamenn að fróðlegt sé að fara á það svæði vegna þess að það sé athyglisvert fyrir ákveðna hluti.

Það sem hv. þingmaður sagði að hann vildi ekki lögleiða sameiningu heldur að binda sig við að sækja þetta í gegnum sameiginlegt svæðisskipulag, spurningin er um skilgreiningar á svæðum. Er það alveg ljóst, nú spyr ég af vanþekkingu, hvaða svæði á að leggja undir? Ég upplifði það á sínum tíma þegar ég tók þátt í svæðisskipulagi sunnan Skarðsheiðar sem kallað var, á Akranesi og nágrannahreppunum á þeim tíma, og í því var verkefnakafli sem var á engan hátt bindandi, að mjög fljótlega kom upp ágreiningur um framkvæmdina, hvernig ætti að fylgja henni eftir. Á því svæði var til dæmis verið að ræða um efnisnámur, nýtingu útivistarsvæða og ýmislegt annað þar sem stórt sveitarfélag var háð því að hafa aðgang að náttúrunni í kring og öfugt. Þá skiptir auðvitað gríðarlega miklu máli að menn séu einmitt, eins og hér hefur komið fram, sammála í stórum megindráttum um einhverja framtíðarsýn fyrir svæðið. Hún yrði svo endurskoðuð reglulega, og þá er miklu auðveldara að sitja og gagnrýna og meta í umhverfismati þegar hugmyndir um framkvæmdir koma fram, hvort sem er á vegum einstaklinga eða sveitarfélaga.