143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

mat á umhverfisáhrifum.

467. mál
[14:39]
Horfa

Edward H. Huijbens (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur svörin. Reynslan er sannarlega góð og mikil þekking hefur byggst upp í kringum svæðisgarðinn á Snæfellsnesi, og það byggir á áralangri þróunarvinnu sem hefur farið í gegnum nokkrar tegundar vottunarferla. Það sem skiptir máli er að þar er ráðandi sýn sem hefur aftur þýtt möguleika í atvinnusköpun og tækifæri í ferðaþjónustu sem hefur svo sannarlega sannað sig. Þess vegna horfa einmitt mörg önnur svæði til svæðisgarðsins. Menn þar hafa einnig fengið öfluga ráðgjafa í lið með sér frá Alta.

Mig langar til að nefna önnur svæði, t.d. Katla Geopark, jarðvang í kringum Kötlu, sem hefur fengið ágætisfé og hefur byggt upp ágæta sýn varðandi þróun ferðaþjónustu á forsendum náttúrunnar þar. Talað er um jarðvang á Reykjanesi og víðar. Á Norðausturlandi og Austurlandi er talað um sambærilega hluti, þ.e. vottunarkerfi sem sveitarfélögin taka upp og vinna með. Allt undirbyggir það möguleika ferðaþjónustu og annarrar atvinnusköpunar.

Þá er einmitt spurningin, hvað er svæði? Hvað er það sem fellur undir það að geta orðið svæði á grundvelli svæðisskipulags? Hér er auðvitað úr vöndu að ráða. Vandinn sem við blasir er oft sá að svæðin hingað til hafa verið skilgreind eftir stjórnsýslumörkum sveitarfélaga sem hafa kannski ekki endilega neina sérstaka skírskotun í hugum fólks, náttúrufarslega séð, atvinnulega séð eða samgöngulega séð einu sinni. Því er mikilvægt að horfa til svæðaskilgreininga út frá samgöngum, vistheildum, náttúruheildum og auðvitað atvinnusvæðum og atvinnusóknarsvæðum. Þetta er allt í skilgreiningum og hvernig þetta vinnst saman. Það þarf að hugsa til þess. Þetta er vinna sem ætti að fara í í gegnum landsskipulagið, þ.e. hvaða svæði eru undir hverju sinni og út frá hvaða forsendum þau eru skilgreind. Það er rétt að oft er úr vöndu að ráða þar.