143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

mat á umhverfisáhrifum.

467. mál
[14:41]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það hafa spunnist athyglisverðar umræður um þetta mál sem ég vil aðeins blanda mér í. Það á sér líka athyglisverða forsögu hér í þinginu. Reyndar er þetta mál ekki eitt um það að vera uppvakningur frá fyrra kjörtímabili sem stafar af því að óvenjuleg meinbægni var sýnd hér, einkum á síðari hluta síðasta kjörtímabils, sem ég held að sé sem betur fer enn einsdæmi í þingsögunni. Mál voru stöðvuð, jafnvel endurflutt mál, trekk í trekk, þó þau væru nánast fullunnin, sum hver komin út úr þingnefndum, af einskærri meinbægni. Það var eins og það væri orðið markmið í sjálfu sér að stífla vinnu þingsins og koma í veg fyrir að frumvörp næðu fram að ganga.

Auðvitað þekkjum við mörg hver, sem eigum hér einhverja sögu á þinginu, að stimpingar eru á milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Menn takast hart á um mál og einstöku stórmál eru í sigti í stjórnarandstöðu kannski, að reyna að bregða fæti fyrir þau. Það er allt saman gamalkunnugt og á örugglega eftir að endurtaka sig. Ég held í fullri hreinskilni sagt að þarna hafi komið upp andrúmsloft sem er alveg einstakt í þingsögunni. Það skipti stundum, að því er virtist, engu máli hvert innihald frumvarpanna var, það var markmið í sjálfu sér að tefja fyrir störfum þingsins. Það leiddi til þess að gríðarmikið af málum, sem höfðu verið undirbúin jafnvel með einhverra ára aðdraganda í Stjórnarráðinu, dagaði hér uppi ár eftir ár. Talsvert af þessum málum voru nauðaskyld þessu, þ.e. að einhverju leyti var verið að breyta löggjöf á Íslandi til að bregðast við athugasemdum og/eða innleiða tilskipanir úr Evrópurétti. Það þjónar að sjálfsögðu ekki miklum tilgangi ef menn eru komnir að þeirri niðurstöðu og búið er að samþykkja á vettvangi EES-samstarfsins að taka upp tilteknar gerðir að þvælast fyrir því hér með tiltölulega ómálefnalegum hætti að þau verk séu kláruð.

En svona var þetta nú iðulega og hugsanlega er til dæmis núverandi hæstv. ráðherra þessa málaflokks ekki alveg alsaklaus af því að hafa ásamt félögum sínum brugðið fæti fyrir ýmis frumvörp en lendir nú í þeirri neyðarlegu aðstöðu að þurfa að flytja þau aftur sjálfur. Það á hér við. Þetta mál var eins og fram hefur komið, meðal annars hjá hv. þingmönnum sem áttu sæti í umhverfisnefnd á síðasta kjörtímabili, fullunnið af nefndinni og tilbúið til afgreiðslu. Það gat verið um það einhver minni háttar pólitískur ágreiningur eins og hér er dreginn fram, um eitt efnisatriði, að því er virðist, en það er í sjálfu sér ekki rök fyrir því að tefja framvindu slíkra mála ár eftir ár og að það þurfi að endurflytja þau aftur og aftur.

Það var talsvert af málum sem búið var að gera tvær og jafnvel þrjár tilraunir til að fá hv. Alþingi til að afgreiða, hundleiðinleg innleiðingarmál, tæknileg mál þar sem afar lítið svigrúm er nú fyrir pólitík satt best að segja, því að tilskipanirnar eru nú einu sinni eins og þær koma af skepnunni, en þau eru drepin hér aftur og aftur með tilheyrandi sóun á vinnu og í raun og veru lítilsvirðingu við þá vinnu sem unnin er í Stjórnarráðinu, í ráðuneytunum og hér á þingi. Ég held að við eigum að láta þetta verða okkur umhugsunarefni.

Það kemur vel á vondan og þess vegna gleðst ég yfir því í sjálfu sér þegar ráðherrar, núverandi og hæstvirtir, í ríkisstjórn þurfa að flytja mál aftur og aftur eins og verið hefur á dagskrá hér í allan vetur af þessu tagi sem þeir stoppuðu hér sjálfir í fyrra, hittiðfyrra og jafnvel árið þar áður. Það eru dæmi um slíkt. Nú allt í einu snýr þetta öðruvísi að það er embættisskylda þeirra og liggur við refsingum í Evrópska efnahagssamstarfinu ef ekki er við brugðist. Sum af þessum málum eru orðin mjög úldin og komin á tíma og jafnvel vofir yfir okkur dómsmál eða málaferli hjá EFTA-dómstólnum út af seinagangi við innleiðingar.

Þannig að það er nú ástæða til að rifja þetta upp. Ég var til dæmis rækilega var við þetta, frú forseti, framan af hausti í efnahags- og viðskiptanefnd; það kom nú lítið frá hæstv. ríkisstjórn, hefur reyndar gert enn, nema svona mál. Þau komu í talsverðum bunkum í efnahags- og viðskiptanefnd, innleiðingarmál, eða mál þar sem ESA hafði gert athugasemdir, sem höfðu verið stöðvuð á síðasta kjörtímabili, sum hrein tæknilegs eðlis. Ráðherrarnir sem höfðu allt á hornum sér í garð þeirra sem stjórnarandstæðingar á fyrra kjörtímabili, þeir urðu núna að flytja þau. Margir af háværustu liðsmönnum þeirra hér á síðasta kjörtímabili, sem gjarnan notuðu allt sem tengdist Evrópusambandinu á einhvern minnsta mögulegan máta sem rök fyrir því að stöðva mál, standa nú að flutningi og framlagningu stjórnarfrumvarpa um nákvæmlega sama efni.

Ég get til dæmis ekki neitað því að ég hafði gaman af því að lenda inni á fundi í utanríkismálanefnd þar sem hv. 3. þm. Norðvest., Ásmundur Einar Daðason, sat og á dagskrá voru þrjú, fjögur, fimm innleiðingarmál sem höfðu verið stöðvuð í fyrra. Þá höfðu menn talið það mjög hættulega aðlögun að Evrópusambandinu og haft um það hin hörðustu orð, en það sem helst hann varast vann varð nú að koma yfir hann. Nú lendir þessi hv. þingmaður í því hlutskipti að standa sem stjórnarþingmaður að framlagningu á hverju málinu á fætur öðru sem var af þessum toga.

Varðandi þá breytingu sem hæstv. núverandi umhverfis- og auðlindaráðherra leggur til á frumvarpinu hefur hún auðvitað eðli málsins samkvæmt talsvert verið rædd hér og ég vil aðeins blanda mér í það mál. Spurningin um það hvort það sé skynsamlegt fyrirkomulag að vísa til sveitarstjórna stjórnsýslunni og ákvarðanatökunni hvað varðar framkvæmdir sem háðar eru framkvæmdaleyfi eða byggingarleyfi, samkvæmt skipulagslögum eða lögum um mannvirki, að gerð og eru tilgreind í þessum C-flokki. Þetta eru sem sagt minni verkefni með minna umfang en þau sem fara ofar. Um þetta má svo allt saman lesa í 12. gr. Þar eru framkvæmdirnar flokkaðar í A-, B- og C-flokk og eins og menn sjá þá er C-flokkurinn yfirleitt minni í sniðum. Framkvæmdir til endurskipulagningar á landeignum í dreifbýli á landsvæði allt að 20 hekturum, vatnsstjórnunarframkvæmdir vegna landbúnaðar, nýræktun skóga á allt að 200 hekturum. Og þó, það er nú dálítið verkefni. En hlutir eins og þauleldi alifugla og svína með að minnsta kosti í fyrsta lagi 85 þúsund stæði fyrir kjúklinga, eða 60 þúsund stæði fyrir hænur, 3 þúsund stæði fyrir alisvín yfir 30 kíló, eða í þriðja lagi 900 stæði fyrir gyltur. Þetta lendir í A-flokki, enda umtalsverð umsvif.

Minni háttar starfsemi er sem sagt gjarnan felld þarna undir C-liðinn.

Þetta er nú oft býsna viðkvæm ákvarðanataka. Við getum tekið þetta með allt að 200 hektara til skógræktar. Við getum tekið þetta með þauleldi á fiski þar sem ársframleiðsla er allt að 200 tonn. Fráveita reyndar til sjávar og svo framvegis. Ég er nú að nefna þessa dæmaflokka aðeins í aðdraganda þess að velta þessu fyrirkomulagi fyrir mér. Er þetta skynsamleg leið? Ég hef talsverðar efasemdir um það, segjandi þó að ég hef fullan skilning á og er í raun stuðningsmaður tvenns; þ.e. að sveitarstjórnirnar skipta að sjálfsögðu mjög miklu máli og hafa mikilvægu hlutverki að gegna á sviði umhverfisréttarins, það er alveg ljóst, og í sambandi við nærumhverfið. Og ég er í öðru lagi stuðningsmaður þess almennt, þar sem aðstæður eru til þess, að efla sveitarstjórnarstigið og fela því verkefni. En það verður að vega og meta það mjög vel í hverju einstöku tilviki hvað er skynsamlegt í þeim efnum.

Ég er ekki viss um að það sé endilega skynsamlegt að fara þessa leið frekar en þá sem lögð var til í frumvörpunum eins og þau voru úr garði gerð og flutt á 140. og 141. löggjafarþingi þar sem gert var ráð fyrir því að Skipulagsstofnun færi með ákvörðunarvaldið í þessum efnum eins og í hinum stærri verkefnum.

Þar á ofan sýnist mér í þessu frumvarpi vera gert ráð fyrir því að fara talsverða fjallabaksleið að þessu máli, þ.e. að formi til og efni á valdið þarna að liggja hjá sveitarfélögunum. En það er hins vegar uppálagt að Skipulagsstofnun skuli hafa leiðbeiningarhlutverk gagnvart þessum sveitarstjórnum varðandi ákvarðanirnar um matsskylduna, hvort hún eigi að koma til eða ekki. Af hverju er það? Getur verið að menn átti sig á því að sveitarfélögin eru misvel í stakk búin til þess að takast á við það að meta aðstæðurnar? Þannig að Skipulagsstofnun á að koma áfram inn í málið og að málinu, en svona bakdyramegin í gegnum leiðbeiningarskyldu. Skipulagsstofnun á að semja leiðbeiningar til handa sveitarstjórnunum þannig að sveitarstjórnirnar geti tekist á við hlutverk sitt með samræmdum hætti. Já. Bíddu, er þetta kannski ekki alveg eins skynsamlegt og menn skyldu ætla úr því Skipulagsstofnun þarf að hafa leiðbeiningarhlutverk, semja leiðbeinandi reglur til að reyna að tryggja samræmda framkvæmd sveitarfélaganna á ákvæðinu?

Þar á ofan á Skipulagsstofnun samkvæmt frumvarpinu að hafa eftirlit með málsmeðferð sveitarstjórnanna varðandi ákvarðanatöku um matsskyldu þeirra framkvæmda sem hér heyra undir. Lagt er til að sett verði á fót rafrænt gagnasafn þar sem skráðar verða upplýsingar um framkvæmdir og leyfi til þeirra framkvæmda sem falla undir lögin. Mun eftirlit Skipulagsstofnunar fara fram í gegnum gagnasafnið og er fyrirmynd að því sótt til laga um mannvirki og til byggingarreglugerða. Nánar verður svo kveðið á um hlutverk Skipulagsstofnunar og eftirlit í reglugerð.

Er þetta nú ekki dálítil fjallabaksleið? Af einhverjum ástæðum hefur hæstv. ráðherra valið að þarna skuli sveitarfélögin hafa ákvörðunarvaldið, en svo ber frumvarpið það allt saman með sér að menn telja að Skipulagsstofnun þurfi að vera þarna undir og yfir og allt um kring; leiðbeina, semja reglur og hafa eftirlit, til að reyna að tryggja eftir sem áður skipulega og samræmda málsmeðferð.

Þá leita auðvitað á mann efasemdir. Borgar sig að standa í þessu? Er þetta skynsamlegt? Er sveitarfélögunum greiði gerður með þessu að kljúfa ákvarðanatökuna upp þegar kemur að því að meta framkvæmdir og setja þar inn einhver stærðarmörk, undir 200 hekturum, minna en 50 tonn, minna en 200 tonn af þessu eða hinu? Það er nú ekki kannski neinn eðlismunur á landspildum sem á að taka til nytjaskógræktar, hvort þær eru 205 hektarar eða 199. Bíddu, þetta er ekki alveg einfalt.

Ég er ekki viss um að sveitarfélögum sé heldur endilega mikill greiði gerður með þessu. Er þetta verkatilflutningur? Er þetta flutningur verkefna frá ríki til sveitarfélags? Já, að einhverju leyti. En hvað hafa menn yfirleitt miðað við að væru skynsamlegar reglur í þeim efnum? Jú, það er að reyna að ná fram sem hreinastri verkaskiptingu, að ríki og sveitarfélög séu þá ekki mjög mikið að kássast inn í sama málaflokknum. Þetta er ekki það. Þvert á móti.

Hér er verið að útvista til sveitarfélaganna tilteknu stjórnsýslu- og ákvarðanatökuvaldi í einhverju svona neðsta lagi framkvæmda og dregin einhver tilgreind stærðarmörk á grundvelli flokkunarinnar hér í A, B og C. Þannig að kannski 50 kíló af fiski eða 200 fermetrar af landi ráði því hvort það er ríki eða sveitarfélag sem tekur ákvörðun um matsskil.

Ég held að þetta þurfi að hugleiða mjög vel og ræða við sveitarfélögin rækilega, og samtök þeirra, hvort þau séu sannfærð um, samanber þó umsögn þeirra, að það sé endilega framfaraspor að fara inn í þennan geira þessa málaflokks. Ég hef talsverðar efasemdir um það, endurtakandi þó það sem ég sagði að almennt er ég stuðningsmaður þess að fela sveitarfélögunum viðameiri verkefni (Forseti hringir.) í verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Ég geri ekki á nokkurn hátt lítið úr mikilvægi sveitarfélaganna hvað varðar hið staðbundna nærumhverfi á sínum svæðum.