143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

mat á umhverfisáhrifum.

467. mál
[14:57]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður lauk ræðu sinni á því sem ég ætlaði að spyrja hann betur út í, það er þetta með áhrif nærumhverfisins á ákvarðanir varðandi hluti sem geta hugsanlega haft áhrif á umhverfið. Við ræddum það hér áðan í andsvörum að kannski vantar okkur miklu meira heildaráætlanir, langtímaáætlanir, svæðisskipulag eða skipulag, vottun á svæðum eins og gert hefur verið á Snæfellsnesi og er í bígerð á Vestfjörðum, vona ég, eða verður fylgt eftir, þar sem menn geta sett sér ramma sem þeir geta unnið eftir þegar menn eru að taka ákvarðanir,

Skildi ég það rétt að hv. þingmaður er í raun fyrst og fremst að gagnrýna flokkunina, þessi C-flokkur sem fer til sveitarfélaga sé annaðhvort of takmarkaður eða að sveitarfélögin séu of veikburða til að sinna honum? Bara aðeins skýrar varðandi það.

Ég tek undir með hv. þingmanni, ég tel mikilvægt að sveitarfélögin hafi hlutverk við umhverfismat og skipulagsvinnu. En ég hef ítrekað í framsögu minni hér og í umræðu að þá þarf jafnframt að skapa almennum íbúum, íbúafélögum og líka félögum sem eru stofnuð sérstaklega til að sinna umverfisvernd, starfsaðstöðu og tækifæri til að sinna hlutverki sínu. Æði oft vill leikurinn verða ójafn þar sem annars vegar eru stór fyrirtæki eða stór sveitarfélög sem eru að ráðast í framkvæmdir og fjárvana félög eða íbúasamtök eru kannski í vandræðum með að keppa við viðkomandi aðila um álit á viðkomandi máli og leggja þá fram fagleg rök fyrir því, umhverfisleg rök, varðandi hættu á mengun eða varanlegum skemmdum o.s.frv.

Mig langaði aðeins að heyra þetta með C-flokkinn, á hann að stækka og á jafnvel að binda hann við stærri svæði og vinna þannig með það? Eða vill hv. þingmaður meina (Forseti hringir.) að það sé óþarfi að taka C-flokkinn undir sveitarfélögin?