143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

mat á umhverfisáhrifum.

467. mál
[14:59]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi nærumhverfið og hlutverk heimamanna eða sveitarfélaga þá er það á margan hátt vandasamt mál og það þekkjum við úr sögunni. Að sjálfsögðu er mikilvægt og eðlilegt að íbúar svæða og sveitarfélög, og forsvarsmenn sveitarfélaga fyrir þeirra hönd, séu virk á þessu sviði og hafi hlutverki að gegna. En um leið eru því ýmis vandamál samfara að færa ákvarðanavald alveg inn í það návígi sem getur verið í litlum sveitarfélögum. Þessa glímu þekkjum við mjög vel. Við getum þess vegna nefnt stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs og þá miklu vinnu sem þar var lögð í að reyna að sætta þessi sjónarmið. Eðlilegar kröfur og jákvæðar kröfur heimamanna um að þeir hafi eitthvað um það að segja hvernig farið er með málin á þeirra svæðum, en um leið þörfin fyrir það að eitthvert samræmt skipulag á landsvísu sé til staðar og að hagsmuna allrar þjóðarinnar sé gætt, umhverfisins og allra kynslóða. Þannig að við erum hér að tala um svona einhvers konar samspil þátta sem þarf að fella saman.

Ég er í sjálfu sér ekki endilega að gagnrýna þessa flokkun enda hef ég veikar faglegar forsendur til þess. Ég er meira að benda á hvernig hún er til þess að draga athyglina að því að það eru nokkrir hektarar hér eða nokkur kíló þar, í umsvifum í skógrækt eða fiskeldi, sem færa ákvarðanatökuvaldið frá ríki til sveitarfélaga. Það leiðir af þessari flokkun. Ég skil rökin fyrir henni. Það er kannski síður ástæða til að senda verkefni í umhverfismat þegar minna umfang er á ferðinni. En það leiðir til þessa, það myndast bara einhver mörk sem ákveða hvort þú þarft að sækja (Forseti hringir.) með þín mál til sveitarfélags eða ríkis. Þú gætir til dæmis bara stýrt því með því að ákveða að planta ekki nema í 199 hektara og ala ekki nema 199 (Forseti hringir.) tonn af fiski.