143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

mat á umhverfisáhrifum.

467. mál
[15:02]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Maður getur velt fyrir sér, eftir þessa umræðu um hlutverk sveitarfélaganna, hvort skipta eigi landinu upp að einhverju leyti undir þetta landsskipulag, svæðisskipulag, og þá svæðisskipulag einstakra svæða. Við vorum að tala hér um fámenn og fjölmenn sveitarfélög, þ.e. Reykjavíkurborg versus kannski minnstu sveitarfélögin með sína 50 íbúa eða rétt rúmlega það. En sum af þessum fámennu sveitarfélögum eru með gríðarlegt land, þ.e. íbúar þess svæðis og sveitarfélagið eru með gríðarlegar stórar lendur.

Þá kemur að því, sem hv. þingmaður var nú kannski að ýja að, hver hefur skipulagsvaldið, hver aðkoma þjóðarinnar er í heild að þessum svæðum. Dæmigert við þessa umræðu er kannski Reykjavík og Reykjavíkurflugvöllur. Varðar það alla þjóðina? Varðar það bara skipulag Reykjavíkurborgar? Hvernig mundi það fara í þessari flokkun?

Við erum með önnur dæmi. Við nefndum Vatnajökulsþjóðgarð. Við getum nefnt miklu fleiri dæmi þar sem menn eru að taka ákvarðanir sem varðar allt landið, en eitt sveitarfélag getur annaðhvort stutt eða líka stöðvað framkvæmdir, við skulum ekki útiloka það. Það hefur gerst að lítið sveitarfélag hefur stöðvað stórar framkvæmdir, varið kannski umhverfishagsmuni sem hefur verið með jákvæðum hætti.

Mér finnst það skipta mjög miklu máli að við förum að búa til einhverja heildarsýn. Ég vil líka sjá fyrir mér einmitt stefnumótun miklu, miklu vandaðri framtíðarstefnumótun fyrir hvert landsvæði þar sem menn vinna innan þess ramma þannig að það liggi fyrir með hvaða hætti á að nýta landið jafnvel þó það sé endurskoðað með nýrri tækni og nýjum upplýsingum og allt það, þá sé auðveldara að setja í gang framkvæmdir eða stöðva þær vegna þess að það liggur fyrir ákveðin stefna fyrir viðkomandi svæði.