143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

mat á umhverfisáhrifum.

467. mál
[15:04]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er auðvitað alveg rétt sem hér er bent á að staða sveitarfélaganna er mjög ólík að þessu leyti. Við rekumst æði oft á þetta þegar rætt er um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og möguleika á að sveitarfélögin taki að sér verkefni, að staða þeirra er gríðarlega ólík. Hún er kannski einstaklega ólík í þessum tilvikum vegna þess að þá er þetta ekki bara spurning um íbúafjölda heldur líka landsvæði. Við erum sums staðar með mjög fámenn sveitarfélög með gríðarleg landflæmi undir þar sem vel má við því búast að ýmis framkvæmdaáform komi á þessi krítísku mörk: Eiga þau að sæta mati á umhverfisáhrifum áður en þau eru heimiluð eða ekki? Þetta eru kannski sömu sveitarfélögin og lenda í því, fámenn og landmikil sum hver, að eyða 20% tekna sinna í refa- og minkaeyðingu af því þau eru með þvílíkt flæmi undir og ýmis verkefni sem tengjast landstærð sveitarfélagsins sem gera að verkum að aðstæður þeirra eru auðvitað allt aðrar en annarra sveitarfélaga.

Í mínum huga er, hvað sem öllu tali um Reykjavíkurflugvöll líður, engin spurning um það að svæðis- og deiliskipulagsvaldið á að vera hjá sveitarfélögum. Það er hluti af réttindum íbúanna að taka sjálfir ákvarðanir um hvernig þeir skipuleggja nærumhverfi sitt, að sjálfsögðu innan ramma laga sem þar um gilda og háð staðfestingu stjórnvalda og allt það.

Hér er annar hlutur á ferðinni sem ég legg ekki alveg að jöfnu við skipulagsvaldið, þ.e. spurningin um það að meta og ákveða hvort einhver framkvæmdaáform sem fyrirhuguð eru eigi að sæta mati á umhverfisáhrifum út frá varúðarsjónarmiðum, sem menn vonandi viðhafa í þeim efnum, eða þarf þess ekki. Einhver þumalputtaregla um að það sé hægt að setja bara stærðarmörk miðað við hektarafjölda eða kíló í eldi eða fjölda í kjúklingabúum orkar auðvitað tvímælis. (Forseti hringir.) Það verður ekki hjá því komist að fara í gegnum þau mál líka áður en þessu er endanlega svarað: Á þetta að vera hjá sveitarfélögunum eða hjá Skipulagsstofnun?