143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

mat á umhverfisáhrifum.

467. mál
[15:28]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir þetta. Ég ætla að koma aðeins betur inn á það sem ég náði ekki að klára í fyrra svarinu. Fyrst vil ég segja um skipulagsmálið á Þingvöllum að í lögum um þjóðgarðinn kemur fram að þjóðgarðurinn á Þingvöllum skuli vera undir stjórn Þingvallanefndar, en ég held að það sé óyggjandi að skipulagsmál, þ.e. það sem sorterar undir skipulagslögin, séu í höndum sveitarfélagsins Bláskógabyggðar þótt það sé, eins og hefur verið hvíslað að mér, óneitanlega mikið samstarf á milli sveitarfélagsins og Þingvallanefndarinnar um skipulagsmál innan þjóðgarðsins, eðlilega.

Varðandi það sem hv. þm. Helgi Hjörvar nefndi um verkefnatilflutning til sveitarfélaga er ég þeirrar skoðunar að það sé umhugsunarefni þegar við skoðum opinbera geirann í heild sinni hér á landi hvað ríkið er með miklu stærri hluta af opinbera geiranum á móti sveitarfélögunum en til dæmis annars staðar á Norðurlöndum. En þar er líka þriðja stjórnsýslustigið og fleiri íbúar og umtalsvert fleiri íbúar, þannig að það er ekki algerlega hægt að bera hlutina saman þannig. Við búum líka við það að hér er mikil samþjöppun stórs hluta íbúa þjóðarinnar. 40% íbúa þjóðarinnar búa í Reykjavík, höfuðborginni sjálfri, það hlutfall, 40% af íbúum landsmanna í Reykjavík, hefur verið óbreytt í a.m.k. 50 ár, frú forseti, 50 ár. Flutningurinn frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins hefur hins vegar leitt til þess að nágrannasveitarfélög höfuðborgarinnar hafa vaxið og nú búa þar um 20% landsmanna. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi gjarnan að fela sveitarfélögunum fleiri verkefni. Ég held við verðum hins vegar að horfast í augu við þann raunveruleika að sveitarfélögin hér á landi eru mjög misstór (Forseti hringir.) og geta kannski ekki öll, og við eigum ekki endilega að ætlast til þess að þau geti það, tekið að sér söm og sambærileg verkefni.