143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

skipulagslög.

512. mál
[15:46]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við fáum væntanlega tækifæri til dýpri skoðanaskipta en ein mínúta á hvort okkar gefur ráðrúm til. Mig langar í þessu samhengi, við þurfum væntanlega að ræða betur þetta með deiliskipulagsáætlanirnar, að spyrja hæstv. ráðherra um þessa almennu og hlutlægu bótareglu sem kemur til viðbótar við þau tilvik þar sem um beina eignarnámsframkvæmd er að ræða. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi trú á því að nálgun sem þessi dugi til þess að losa sveitarfélög — og þá er ég kannski sérstaklega að tala um Reykjavíkurborg úr þeirri úlfakreppu sem hún er í að því er varðar gamalt og úr sér gengið skipulag sem þó gerir ráð fyrir segjum eins og fimm hæða jafnaðaruppbyggingu í Kvosinni. Hvort við sjáum þá leið duga til þess að koma í veg fyrir þá stöðu að (Forseti hringir.) lóðareigendur geti vænst ómældra bótaupphæða frá Reykjavíkurborg.