143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

skipulagslög.

512. mál
[15:55]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi síðara atriðið sem hv. þingmaður nefndi um að einfalda stjórnsýsluna og gera sveitarfélögum kleift að afgreiða mál á einum og sama fundinum þá er það auðvitað svo að ef mál eru í samræmi við svæðisskipulag og aðalskipulag — við erum að fjalla hér um deiliskipulag — er það hægt. Ef deiliskipulagið samrýmist ekki aðalskipulagi eða svæðisskipulagi er augljóst að slík ákvörðun getur ekki legið fyrir. Þetta er fyrst og fremst til samræmis við þær ákvarðanir er tengjast aðalskipulaginu og svæðisskipulaginu.

Varðandi skipulag miðhálendisins er ákveðið tómarúm vegna þess að landsskipulagsstefnan hefur ekki komið fram, sem tekur þá á því hvernig skipulagsáætlanir eru á miðhálendinu, vegir, línur, uppbygging á einhverjum húsum, ferðaþjónustu eða hvað það nú er. Þangað til landsskipulagsstefnan liggur fyrir er ákveðið tómarúm í stöðunni í stjórnsýslunni og hér er verið að bregðast fyrst og fremst við því að það sé einhver farvegur (Forseti hringir.) fyrir slík mál.