143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

skipulagslög.

512. mál
[16:00]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Herra forseti. Nú þekki ég ekki nákvæmlega þetta tiltekna mál, hvenær framkvæmdaleyfið var gefið út o.s.frv. Það sem er verið að breyta fyrst og fremst er varðar framkvæmdaleyfin er að stytta þann frest eða tímaramma að framkvæmdaleyfið skuli fellt úr gildi úr tveimur árum í eitt en jafnframt er gefinn möguleiki á því að setja á dagsektir í staðinn þannig að ekki sé nauðsynlegt að fella framkvæmdaleyfið úr gildi ef framkvæmdin stöðvast í eitt ár eða lengur. Í staðinn eru þá settar á dagsektir til að gefa sveitarstjórnunum meiri sveigjanleika til að fjalla um þetta án þess að vera með óþarfa íþyngjandi aðgerðir, dagsektir eru það þó vissulega. Ef eitthvað kemur upp á sem veldur því að framkvæmdir stöðvast tímabundið er þá ekki nauðsynlegt að fella framkvæmdaleyfið úr gildi heldur er möguleiki að setja á dagsektir.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að breytingin varðandi bótaákvæðið er kannski stærsta breytingin í frumvarpinu. (Forseti hringir.) Annað eru meira tæknilegar útfærslur um tímafresti og annað sem menn hafa hreinlega rekið sig á af reynslu laganna.