143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

skipulagslög.

512. mál
[16:03]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil árétta að það sem við vorum að tala um áðan, framkvæmdaleyfið, er framkvæmdaleyfi samkvæmt mannvirkjalögum sem snúa þá ekki að byggingarleyfum fyrst og fremst heldur að öðrum framkvæmdum eins og vegaframkvæmdum eða öðru.

Varðandi miðhálendið er staðan sem er uppi einfaldlega þannig að svæðisskipulag miðhálendisins hafði ákveðinn gildistíma. Hann er fallinn úr gildi. Landsskipulagsstefnan, sem ávallt á að innihalda stefnu um svæðisskipulag miðhálendis á hverjum tíma, hefur ekki tekið gildi og þess vegna er gap. Það er þá spurning til hvers á að leita til að óska eftir framkvæmdaleyfi eða setja inn á skipulag eða hvernig það skal gert, og hér er verið að skýra það. Með því að skýra það er auðvitað kominn einhver aðili sem fjallar um þetta og þar með aukast möguleikar á aðkomu þeirra sem vilja tjá sig um fyrirhugaða framkvæmd.