143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

skipulagslög.

512. mál
[16:05]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á skipulagslögum, þar sem m.a. er um að ræða bótaákvæði sem nokkuð hefur borið á góma hér í andsvörum.

Mig langar að staldra svolítið við þann veruleika sem ýmsir hv. þingmenn hafa nefnt, fleiri en einn og fleiri en tveir. Þeir hafa rætt um þá stöðu sem uppi hefur verið fyrst og fremst hér í höfuðborginni. Hún varðar þá staðreynd að menn eru í raun og veru að kaupa og selja hugmyndir eða kaupa og selja væntingar um byggingar. Menn eru að selja reiti með deiliskipulagi upp á margra hæða byggingar eða gríðarlegt byggingarmagn sem jafnvel af einhverjum öðrum ástæðum kemur varla til framkvæmda. Dæmi um þetta gætu verið hús við Lækjargötu eða við aðrar götur í miðborginni. Vegna verndarsjónarmiða kemur sennilega aldrei til þess að þau tilteknu hús verði látin víkja en á sama tíma er gríðarlega mikið vænt byggingarmagn í deiliskipulagsáætluninni sem liggur á staðnum. Borgaryfirvöld eða almannavaldið situr því eiginlega uppi með að vera í lás með skipulagið á tilteknum svæðum. Þetta er ólán. Það er ómögulegt að hafa þetta svona.

Það sem gert er með þessu frumvarpi er að viðfangsefnið er nálgast með því að skýra hvenær fólk má vænta þess að eiga bótarétt ef til þess kemur að það missir af einhverjum gæðum eða einhver breyting verður á skipulagi eða eitthvað slíkt. Það er verið að skýra hvenær það á rétt á bótum. Í núverandi lögum kemur það ekki fram. Ég hefði jafnvel viljað sjá lög um það hvenær menn eigi ekki rétt á bótum eða að menn eigi bara alls ekki rétt á bótum, en þá erum við komin í gamalkunnugan árekstur eða núning við stjórnarskrá Íslands og eignarréttarákvæðið sem er ekkert smáræði.

Ég vil sérstaklega fagna þessu ákvæði og hvernig það er undirbyggt með tilvísan í löggjöf í löndunum í kringum okkur. Ég spurði hæstv. ráðherra í andsvari hvort hann vænti þess að hér væri um að ræða nýjan veruleika, við værum í raun búin að kippa borginni inn í 21. öldina, hún sæti ekki uppi með þessi erfiðu mál lengur. Það er auðvitað tæplega svo heldur gildir þetta fyrst og fremst um það hvenær menn geta vænst bóta og þá væntanlega inn í framtíðina.

Mig langar hins vegar að staldra svolítið við umræðuna sem hér hefur orðið um gildistíma deiliskipulags. Ég er viss um að það er þáttur sem full ástæða er fyrir nefndina til að skoða. Eins og hér hefur komið fram gildir það um framkvæmdaleyfi og byggingarleyfi að byggingarframkvæmdin þarf að vera hafin innan tiltekins tíma ef byggingarleyfið á að gilda. Ef maður fær byggingarleyfi fyrir hús og hefur ekki framkvæmdir innan tveggja ára þarf aftur að sækja um byggingarleyfi þó að deiliskipulagið sé fyrir hendi. Af hverju er það? Það kunna að vera komnar nýjar forsendur, ný stjórnvöld, nýjar ákvarðanir eða ný meginmarkmið eða eitthvað slíkt, þannig að byggingarleyfið rennur út.

Þá veltir maður fyrir sér hvort ekki sé enn þá frekari ástæða til þess að deiliskipulagsáætlanir renni út. Ef um sé að ræða óskir um framkvæmdir eða breytingar á grundvelli deiliskipulagstillögu geti hún hið mesta verið svo og svo gömul annars þurfi hún endurstaðfestingar við með tilheyrandi samráði við íbúa í grenndinni og svo framvegis. Ef deiliskipulagið fær ekki náð fyrir augum nærsamfélagsins beri að fara í eitthvert nýtt ferli.

Það er eiginlega ómögulegt annað en taka upp a.m.k. mjög alvarlega skoðun á þessu, þó ekki væri nema vegna þess að kjörtímabilið í sveitarstjórn er sannarlega bara fjögur ár. Menn sitja ítrekað uppi með ákvarðanir sem teknar voru árið sautján hundruð og súrkál. Það var enginn sem mótmælti þessu árið 1986, þess vegna má byggja hérna 14 hæða turn. Það hljóta allir að sjá að það gengur ekki upp út frá grundvallarhugmyndum um lýðræði.

Ég hef stundum hugsað það sjálf, sérstaklega þegar ég var í skipulagsráði Reykjavíkurborgar, að það ætti að vera þannig með meiri háttar skipulagsákvarðanir. Þá á ég við ákvarðanir eins og til að mynda inngrip í útsýni af dýrmætum stöðum, ákvarðanir sem varða ásýnd sveitarfélags eða aðkomu að því eða eitthvað slíkt, t.d. hvort við sjáum framhliðina á Landspítalanum frá Öskjuhlíðinni eða hættum að sjá framhliðina, hvort við sjáum Skarðsheiðina þegar við horfum norður Lækjargötuna eða ekki; ákvarðanir um tilveru sem Reykvíkingar hafa búið við, ekki bara í fjögur ár heldur í kannski þúsund ár. Á að gilda um slíkar ákvarðanir að það þurfi aukinn meiri hluta, kannski þrjá fjórðu atkvæða eða eitthvað slíkt? Ég spyr vegna þess hversu afdrifaríkt það getur verið að taka ákvarðanir eins og þær að byggja ljótan turn sem skyggir á dýrmæta fjallasýn eða eitthvað slíkt og vísa til jafnvel tæps meiri hluta fyrir tuttugu, þrjátíu, fjörutíu árum. Það er eitthvað sem truflar mann í lýðræðislegu samhengi þar. Það kann að vera að þetta sé lagatæknilega flókið eða varði eignarréttindi eða eitthvað slíkt. En ég er hugsi að því er varðar byggingarleyfi og framkvæmdaleyfi og aðra slíka þætti þar sem gilda ákveðin tímamörk.

Við ræddum hér fyrr í dag lög um mat á umhverfisáhrifum. Í þeim gildir að ef tíu ár eru liðin frá því mat átti sér stað getur annaðhvort framkvæmdaraðili eða sveitarfélag óskað eftir því að Skipulagsstofnun endurmeti það hvort nýtt umhverfismat þurfi.

Það eru því víða í skipulagsumgjörðinni tímaásar, mislangar og misstuttar tímalínur með ákveðnum rökstuðningi í hvert sinn, en þarna er því ekki að heilsa. Ég átta mig vel á því að þegar við tölum um deiliskipulag í grónum hverfum, ég get nefnt Melana eða Fossvoginn eða einhver slík hverfi, er ástæðulaust að taka deiliskipulagið upp á fimm ára fresti. Þau hverfi eru bara svona. En það þyrfti að vera eitthvað sem vekur það að deiliskipulag sé tekið til endurskoðunar, þ.e. að ef einhverjar væntingar eru um nýframkvæmdir eða breytingar eða eitthvað slíkt fari endurmat fram.

Þeir sem væru best til þess fallnir að fjalla um þetta eru væntanlega skipulagsyfirvöld á þeim svæðum þar sem tíðastar ákvarðanir eru teknar um deiliskipulag. Mér finnst full ástæða til að nefndin, ráðuneytið, Skipulagsstofnun, Reykjavíkurborg, setjist yfir þetta í einhverri smiðju og skoði hvort einhverjir fletir séu á þessu því að mikilvægasta sjónarmiðið til að hafa í huga þegar skipulagsáætlanir eru annars vegar er alltaf heildarhagsmunir.

Mér er það minnisstætt þegar ég hitti skipulagsyfirvöld í Helsinki fyrir nokkrum árum. Þar var sá háttur hafður á að borgin keypti heila reiti, skipulagði þá og seldi síðan til þeirra sem vildu framkvæma. Hér hefur það verið öfugt. Framkvæmdaraðilarnir eiga reitina, svo byrjar togið um skipulagið, hvort skipulagið eigi að vera þrjár hæðir eða fimm eða ein inndregin eða aðeins meira hér og aðeins í viðbót hér og svo framvegis. Þeir sem eiga reitinn hafa því svo mikla hagsmuni af því að fá mikið byggingarmagn á hann. Það gildir jafnvel um staði þar sem lítið eða ekkert skipulag er fyrir hendi.

Á Norðurlöndunum, sérstaklega var þetta minnisstætt í Helsinki, var sá máti hafður að deiliskipulag var alltaf unnið á grundvelli almannavaldsins, á grundvelli heildarhagsmuna. Svo var sagt: Gott og vel, svo geta aðrir framkvæmt þetta. En svona viljum við hafa þetta af því að hús sem myndar vegg fyrir eitthvert rými, oft einkarými innan dyra, skapar alltaf vegg fyrir almannarými utan dyra. Við erum alltaf að byggja í tvær áttir. Þegar við byggjum turn byggjum við ekki bara turn fyrir þá sem eru þar inni, við byggjum turn fyrir alla sem eru fyrir utan veggina. Þetta gleymist stundum þegar rætt er um hagsmuni og grenndarkynningar o.s.frv. Þetta gildir alltaf í báðar áttir. Við erum alltaf að búa til almannarými. Við erum að búa til götur, við erum að búa til torg, leikvelli, græn svæði o.s.frv. Í hvert skipti sem við byggjum, í hvert skipti sem við ákveðum að koma mannvirki einhvers staðar fyrir erum við með einhverju móti að ramma inn almannarými, svo það sé haft til viðmiðunar og umhugsunar.

Einmitt þess vegna finnst mér 12. gr. frumvarpsins, þar sem sveitarstjórn getur veitt landeiganda eða framkvæmdaraðila samkvæmt hans beiðni heimild til að vinna sjálfur að gerð deiliskipulags, vera grein sem nefndin þarf að skoða mjög vel. Þarna spyr ég um stöðu almannavaldsins og hvar heildarhagsmunirnir eru við borðið. Enn og aftur er ég frekar að hugsa um minni sveitarfélög en stærri þar sem ekki eru heilu deildirnar undir skipulag og mannvirki heldur kannski bara einn fulltrúi sem sveitarfélagið deilir jafnvel með tveimur öðrum sveitarfélögum eins og oft er út um land.

Þarna er verið að færa skipulagsgerðina — ég segi ekki skipulagsvaldið því það er náttúrlega klárt að mörkin eru dregin miðlægt, bæði af ríkinu og svo sveitarfélögum — með mjög afgerandi hætti frá sveitarfélaginu til landeigenda og framkvæmdaraðila. Auðvitað er það þannig í praxís að þetta er stundum gert, það er oft þannig að framkvæmdaraðilar hafa frumkvæði eða áhuga á því að koma að máli við sveitarstjórn með einhverjar tilteknar hugmyndir og vangaveltur og kannski uppdrætti. En spurningin er á hvers forræði úrvinnslan síðan er. Það kann að vera að þessum þætti sé nægilega skýrt fyrir komið í skýringu með greininni. En þetta vekur mann a.m.k. til umhugsunar.

Hér hefur verið fjallað aðeins um landsskipulagsstefnu og ég ætlaði á einhverju hundavaði að komast í andsvar við hæstv. ráðherra á innan við einni mínútu um stöðu þeirrar vinnu. Það bíður væntanlega betri tíma að ég nái einhverju samtali við hann um það, raunar bíður frá mér fyrirspurn til munnlegs svars þar sem landsskipulag ber á góma. Við fáum því væntanlega tækifæri til að skiptast á skoðunum um stöðu þess máls og ekki síst samráðsferlið sem er afar flókið og viðkvæmt. Þar er um að ræða gríðarlega mörg sveitarfélög sem eiga hagsmuni í því lagaumhverfi sem við búum við en um leið kannski enn þá ríkari heildarhagsmuni þjóðarinnar í heild og komandi kynslóða og framtíðarinnar.

Mig langar loks til að nefna það sem lýtur að sveitarfélögunum sjálfum og þeirri stöðu sem þau eru í varðandi skipulagsáætlanir. Hv. þm. Helgi Hjörvar gekk svo langt hér áðan að segja að sveitarfélögin þyrftu einfaldlega að horfast í augu við það að þau þyrftu að sameinast miklu meira en þau gera vegna þess að verkefnin verða sífellt þyngri og tæknilega eru þau mjög oft flókin. Ég held að það sé afar mikilvægt að við horfum til þess miðlægt og í samstarfi við sveitarfélögin að þegar um er að ræða lagaumbúnað eins og skipulagslög ekki síst og lög þeim tengd er oft og einatt um að ræða svo miklar kröfur um sérfræðiþekkingu og alls kyns ferla að til þess að tryggja jafnræði íbúanna í landinu þarf að gera mjög ríkar kröfur til sveitarfélaganna. Þau eiga stundum erfitt (Forseti hringir.) með að standa undir þeim. Þetta þarf allt saman að vera til skoðunar í þessu samhengi.