143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

skipulagslög.

512. mál
[16:28]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þetta frumvarp og framsögu hæstv. ráðherra og vil kannski fyrst og fremst þakka fyrir ágæta greinargerð með frumvarpinu. Í greinargerðinni er að finna ágætisumfjöllun um bótaregluna sem finna má í skipulagslögum, breytingu á henni, samanburð við Norðurlöndin og þar er einnig rakin ákveðin saga sem ég held að sé mjög mikilvæg. Ég tel að hugmyndir fólks um þetta hafi talsvert breyst á undanförnum árum, eins og umræðan hér á undan hefur borið vitni um. Hugmyndir fólks í skipulagsmálum hafa einnig breyst mjög mikið.

Það sem segja má að verið sé að leggja til með frumvarpinu er lagfæring á gildandi skipulagslögum frá 2010 þar sem skerpt er á bótareglunni hvað varðar eigendur fasteigna þannig að hún samræmist í raun og veru dómaframkvæmd miðað við þau lög sem áður voru í gildi. Þá er hugsunin að sjálfsögðu sú að fasteignir og óbein eignarréttindi að þeim falli undir eignarrétt. Byggingarréttur eða önnur afmörkuð og tilgreind réttindi til nýtingar fasteignar heyri þar undir. Um leið sé það skýrt dálítið hvenær eigendur eða þeir sem eiga slíkar fasteignir eða byggingarrétt geti sótt sér bætur.

Í 51. gr. gildandi laga, sem hér eru lagðar til breytingar á, kemur fram að valdi gildistaka skipulagsáætlana því að verðmæti fasteignar lækkar, nýtingarmöguleikar hennar skerðast frá því sem áður var heimilt eða hún rýrnar svo hún nýtist ekki til sömu nota og áður þá á sá sem sýnt getur fram á að hann verði fyrir tjóni af þessum sökum rétt á bótum úr sveitarsjóði eða ríkissjóði eftir atvikum vegna landsskipulagsstefnu eða að sveitarsjóður leysi fasteignirnar til sín.

Þetta ákvæði tryggir fasteignareiganda rétt til bóta vegna tilvika sem fela í sér svo rík inngrip í eignarréttindi að þau verði talið skylt að bæta með hliðsjón af sambærilegum sjónarmiðum og eignarnámsbætur grundvallast á.

Sambærilegt ákvæði var áður að finna í 1. mgr. 31. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Um beitingu þess hafa gengið nokkrir dómar.

Það er meginregla íslensks réttar að almennar takmarkanir eignarráða sem fram koma í lögum eða fyrirmælum stjórnvalda sem eiga skýra stoð í lögum þarf eigandi fasteignar að þola bótalaust. Mörkin á milli almennra takmarkana á eignarráðum og svo hins hvenær um er að ræða skerðingu á eignarrétti sem ber að bæta að fullu samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar eru hins vegar ekki alltaf ljós.

Það má segja að hér sé verið að skerpa á þessum mörkum. Ég tek undir með hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur, sem hér talaði á undan mér, að það er í sjálfu sér mjög jákvætt að hér sé lögð til nánari skilgreining á þessu ákvæði. Það er mjög gott skref. Ég tel enn jákvæðara að hafa þessa ágætu greinargerð því hún veltir upp lykilspurningum, efnislegum spurningum sem lúta að því hvort skipulagsáætlanir eigi að hafa einhver tímamörk þannig að unnt sé fyrir yfirvöld á hverjum stað að breyta skipulagi án þess að þurfa að ráðast í umfangsmiklar bótagreiðslur til þeirra sem eiga lóðir eða fasteignir.

Á þessu máli eru auðvitað tvær hliðar. Við búum öll í húsum á lóðum og væntanlega mundi okkur ekki líka það sérstaklega vel ef skipulagsáætlun hverfisins sem við búum í rynni skyndilega út og okkur væri tilkynnt að ætlunin væri að skerða lífsgæði okkar verulega, rífa húsið sem við búum í eða hvernig sem það væri, skella niður annarri blokk á lóðina á milli blokkanna eða eitthvað slíkt. Að sjálfsögðu viljum við ekki opna fyrir að slíkar breytingar séu of einfaldar í framkvæmd.

Ástæðan fyrir þessari umræðu er sú að málið snýst ekkert um hina venjulegu fasteignareigendur, hinn venjulega meðaljón sem býr bara í sínu húsi hvort sem hann á það eða leigir. Það snýst um braskið sem farið hefur fram með lóðir, ekki síst í höfuðborginni þar sem lóðaverð er dýrast og fasteignaverð hækkar mest. Þar hafa spekúlantar keypt lóðir og fasteignir, þeir tæma húsin, hrekja leigjendur út, láta húsin standa tóm og grotna niður jafnvel þannig að þangað sæki ógæfufólk sem hefur svo veruleg áhrif á nágranna. Til hvers er þetta gert? Jú, til að rífa húsið og byggja einhvern risastóran kumbalda í staðinn. Við þessu hefur ekkert verið hægt að gera því sveitarfélagið er bótaskylt. Ef sveitarfélagið segir til að mynda: Við viljum minnka nýtingarmagn á þessum reit, hér var rætt um turna en við viljum minnka nýtingarhlutfallið og fækka hæðum, er það bótaskylt.

Ég er ekki í nokkrum vafa um að við erum öll sammála um að mjög mikilvægt er að verja réttindi borgaranna þannig að sveitarfélög geti ekki tekið geðþóttaákvarðanir í skipulagsmálum og gjörbreytt lífsgæðum fólks. Á sama tíma er líka mjög mikilvægt að einhverjar hömlur séu á því hvað byggingaraðilar geta leyft sér. Ég lagði raunar fram frumvarp hér á þingi sem miðaði að því að hústökufólk sem tæki sér búsetu í tómum og niðurníddum húsum öðlaðist ákveðin réttindi líkt og gert hefur verið í Hollandi þar sem menn hafa átt við sambærilegt vandamál að stríða. Það frumvarp lagði ég fram fyrir nokkrum árum en það varð því miður ekki að lögum. Ég veit að sveitarfélög á borð við Reykjavík hafa reynt að beita dagsektum til að koma í veg fyrir slíka umgengni en því miður, eins og við vitum og sjáum sem göngum hér daglega um miðborgina, er allt of mikið um það að hér fái hús að grotna niður.

Þá þarf að velta fyrir sér: Er hægt að skoða sólarlagsákvæði eins og hér hefur verið rætt, einhverjar tímasetningar á skipulagsáætlunum þannig að unnt sé í einhvers konar samráðsferli að breyta skipulagi? Tökum sem dæmi turninn sem á að byggja niður við sjó og blokkerar útsýni frá Skólavörðuholti út á sjó. Og við skulum taka annað dæmi. Hvað ef 1982 hefði verið ákveðið að reisa svona turna í lengju meðfram Ægisíðunni til að blokkera útsýnið á sjóinn fyrir öllum Vesturbænum? Það er nákvæmlega eins. Fyndist okkur það góð hugmynd í dag? Auðvitað er það ekki góð hugmynd. Það er alveg skelfileg hugmynd.

Það er eins með þessa turnalengju sem einhverjum fannst góð hugmynd á sínum tíma og fulltrúar allra flokka komu að eins og sagt hefur verið. Þetta snýst nefnilega ekki um flokkapólitík. Þetta snýst um þróun í skipulagsmálum. Og horfi ég nú á tvo fyrrverandi borgarfulltrúa Reykjavíkurborgar í þessu máli. Hugmyndir fólks hafa breyst í skipulagsmálum. Þá verða sveitarfélög að hafa tæki og tól til þess að geta þróað þær hugmyndir. Einhvern tímann voru uppi hugmyndir um að rífa húsin við Tjarnargötu og byggja einhvers konar háhýsalengju þar. Við erum með fullt af svona hugmyndum, hugmyndum sem hafa orðið að veruleika og aðrar ekki, en það er mikilvægt að sveitarfélög séu ekki of bundin af áætlunum sem gerðar voru fyrir löngu. Það er líka mikilvægt að gæta réttinda borgaranna. Þarna þarf því að skoða hvort unnt sé að skapa leið, búa til einhvers konar ferli þannig að hægt sé að fara í eðlilegar breytingar á skipulagi og fylgja takti tímans í þeim efnum án þess að ganga á réttindi borgaranna.

Samhliða þessu er eðlilegt að ræða það sem ég nefndi áðan, skyldur þeirra sem eiga lóðir og fasteignir og skyldur þeirra til að sinna fasteignum sínum þannig að þær valdi ekki skaða. Við höfum raunar lagabókstaf um það en hann hefur því miður ekki dugað til þess að koma í veg fyrir slíkt. Dagsektirnar hafa heldur ekki dugað til. Kannski verður þetta til þess að ég legg fram á nýjan leik frumvarp mitt um réttindi hústökufólks. En maður spyr sig hvað hægt sé að gera þegar maður horfir á þróunina eins og hún hefur verið á sumum svæðum í miðborginni. Sums staðar standa hús sem eru í raun og veru hættuleg umhverfi sínu, við getum sagt það, jafnvel brotnar rúður og allt slíkt. Borgaryfirvöld eru öll af vilja gerð til að taka á málum en hafa ekki nægar heimildir til þess.

Við munum eftir hústökufólkinu sem tók hér hús við Vatnsstíg, ef ég man rétt skömmu fyrir hrun, og var svo borið út. Síðan hefur það hús staðið með neglt fyrir glugga og dyr og ekkert gerst þar. Mér fannst það betra þegar hústökufólkið var á staðnum. Þá var að minnsta kosti mannlíf í húsinu og ekki bara dauði eins og við horfum núna á.

Ég fagna því að frumvarpið sé komið fram og greinargerðin, en ég tel að þetta kalli á mikla umræðu í hv. umhverfis- og samgöngunefnd um framhaldið. Ég efast ekki um að það er samstaða um að við skerpum á bótaákvæðinu með þeim hætti sem hér er lagt til. En þetta kallar á umræðu um hvort við getum unnið meira í þessum málum, bæði hvað varðar tímalengd skipulagsáætlana og skyldur lóðarhafa og fasteignareigenda gagnvart húsum sínum, eignum og lóðum. Það sem eiga að vera sjálfsögð réttindi borgaranna mega heldur ekki verða til þess að skerða réttindi annarra borgara þegar lóðarhafar beita þeim aðferðum sem ég hef lýst hér að framan, meðan þeir bíða eftir að verðgildi lóðanna aukist og þeir fái nægilegt byggingarmagn í gegn.

Þannig að þetta er ágætt mál sem ég held að skipti miklu máli að sé áfram til umræðu á Alþingi.