143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

skipulagslög.

512. mál
[16:39]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsögu hans fyrir málinu. Hér eru m.a. undir eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og mikilvægt að gæta vel að þeim. Það er raunar ánægjulegt að hingað voru að berast fregnir af því að kveðið hefði verið upp úr um það í lagasetningu hér um auðlegðarskattinn, þar sem einmitt voru undir stjórnarskrárákvæðin, að fengist hefði jákvæður dómur fyrir löggjafann um það að gætt hefði verið þeirra atriða sem þurfti í því sambandi.

Ég vil fyrst, virðulegur forseti, fá að gera athugasemdir við þau atriði í frumvarpinu sem lúta að sveitarfélögum þar sem ekki er í gildi aðalskipulag, þar sem því starfi hefur ekki verið lokið og heimildum til þess að afgreiða erindi eftir öðrum leiðum fyrir þau sveitarfélög. Ég undrast það nokkuð að sjá slík ákvæði í frumvarpinu. Ég hélt satt að segja í fáfræði minni að sveitarfélögin hefðu lokið þessum verkefnum sínum að meira eða minna leyti. Ég hef efasemdir um það og bið nú um að hv. nefnd kanni það a.m.k. vel og vandlega hverju það sætir að þessari vinnu er ekki lokið í einhverjum sveitarfélögum. Það á auðvitað að vera meginreglan og maður hefði ætlað það að árið 2014 væri búið að ljúka þeirri vinnu í sveitarfélögunum öllum. Ef útlit er fyrir að slík vinna sé ekki að klárast á einhverjum stöðum held ég að það þurfi að huga að einhverjum öðrum hlutum en að bæta hjáleiðirnar eða lengja tímann sem menn hafa til þess að hafa ekkert aðalskipulag. Meginreglan hlýtur að vera sú að við séum með aðalskipulag í öllum sveitarfélögum landsins. Ef sveitarfélögin geta ekki staðið undir því verður náttúrlega að grípa til einhverra sérstakra ráðstafana til þess að ná því fram þannig að meginskipulagsgagn sé fyrir hendi í öllum sveitarfélögum.

Mér þótti nokkuð sömu ættar þau rök sem hæstv. ráðherra flutti fyrir því að lengja þann tíma sem ráðherra hefur til þess að staðfesta skipulag þar sem Skipulagsstofnun hefur gert athugasemdir við form eða efni úr sex vikum í þrjá mánuði. Það gætti nokkurs misskilnings í svari hæstv. ráðherra við andsvari mínu. Það kom fram í ræðu ráðherrans að ein af ástæðunum fyrir þessu væri sú að ráðherranum væri skylt að gefa sveitarfélögunum færi á því að veita umsögn um niðurstöðu sína áður en hún væri sett fram og að sá umsagnarfrestur væri innan þessara sex vikna tvær vikur og ýmis sveitarfélög væru svo fámenn og smá að þar væri a.m.k. á hlutum úr ári ekki fundað á tveggja vikna fresti heldur bara einu sinni í mánuði og jafnvel með tveggja mánaða millibili.

Við höfum í öllum þessum málum lagt áherslu á að einfalda ferlin, stytta tímarammana, reyna að gera áfrýjunarferlið, staðfestingarferlið og aðra þessa háttar ferla sem skilvirkasta þannig að niðurstöður fáist sem fyrst í mál. Það hefur ekki síst verið hæstv. núverandi umhverfisráðherra sem hefur talað fyrir slíkum sjónarmiðum. Það kemur þess vegna á óvart að það skuli einmitt vera hann sem komi hingað á sínum fyrsta vetri inn með mál um að lengja meðhöndlunartímann í ráðuneytinu svo að mál geti legið lengur á skrifborði ráðherra en verið hefur til þessa. Ég fæ ekki séð að í ræðu ráðherrans hafi komið fram nein efnisrök fyrir því að lengja þennan frest úr sex vikum í þrjá mánuði. Þetta eru ekki þannig úrlausnarefni að ráðherrann eigi að þurfa að sitja yfir þeim í þrjá mánuði til þess að geta ráðið fram úr þeim. Þetta eru býsna afmörkuð álitaefni þegar þau koma upp. Þau hafa verið skýrð af Skipulagsstofnun býsna vel og það er einfalt til þess að gera fyrir ráðherra að taka afstöðu til þeirra og setja hana fram. Það þurfa að koma fram einhverjar miklu ríkari ástæður fyrir því að lengja þennan frest en hafa verið við umræðuna.

Það ætti heldur að vera í hina áttina, hygg ég, að stytta þann frest sem ráðherra hefði, og meira í anda þess sem menn hafa verið að ræða í þessum málum, að skipulagsferlarnir séu, ef eitthvað er, of þungir, of tímafrekir og tafsamir og of flóknir. Þetta er sannarlega ekki til þess fallið að draga úr því.

Að því er lýtur að bótaréttinum sem ég held að sé mikilvægt umfjöllunarefni. Ég hef fylgst nokkuð með því hvernig menn í Bretlandi hafa unnið með þessa hluti að undanförnu. Þar er kannski enn erfiðara um vik með margar framkvæmdir en hjá okkur, sem þrátt fyrir allt búum enn í dreifbýlu landi. Þar í landi, þ.e. í Bretlandi, eru menn núna með áform um lestarlagningu á milli Lundúna og Birmingham. Þar er verið að bjóða bætur fyrir þær breytingar á skipulagi fasteignareigendum, íbúðareigendum, allt að 50 millj. kr. fyrir það ónæði sem verður af þeim framkvæmdum og þeim breytingum í umhverfi þeirra sem nefnd lest er. Það er ljóst að það eru vaxandi kröfur um að menn geti fengið bætur fyrir breytingar á skipulagi og nauðsynlegt að taka þann þátt skipulagsmálanna til umfjöllunar og umræðu hér í þinginu og auðvitað sérstaklega í hv. umhverfis- og samgöngunefnd sem mun síðan fjalla um þetta mál.

Við höfum sem betur fer farið almennt varlega í bótaréttinn í íslenskri löggjöf. Á flestum sviðum í íslenskri löggjöf þarf að vera sannanlegt tjón svo að menn fái bætur. Þannig hefur ekki að neinu marki þróast sá skaðabótakúltúr sem hefur því miður tröllriðið sumum öðrum samfélögum. Ég held að í þessu efni eigum við þess vegna ávallt, ekki bara í skipulagslöggjöfinni, heldur almennt að fara varlega. Ég verð að segja að það höfum við raunar ekki gert í skipulagslöggjöfinni. Sú umræða sem hér hefur spunnist um þann eignarrétt sem deiliskipulagsáætlanir hafa fengið mönnum er sannarlega ekki að tilefnislausu. Það fyrirkomulag er algjörlega óviðunandi að til að mynda kvosarskipulagið hér í miðborginni fyrir — hvað, eru orðin 30 ár síðan það var sett? — þegar gefnar voru heimildir til gríðarlega mikillar uppbyggingar, sem varð sem betur fer í flestum tilfellum ekkert af, að það skyldi fela í sér að menn eignuðust skyndilega gríðarleg eignarréttindi, sennilega einhverja tugi milljarða, ekki bara í óbyggðum fermetrum heldur fermetrum sem hafa aldrei verið byggðir, enn þá áratugum síðar. Þær hugmyndir sem menn höfðu hér fyrir einhverjum áratugum um það hvernig skynsamlegt væri að byggja upp í miðborginni — að þær hugmyndir geti ekki breyst og þróast og menn geti ekki með góðu móti gert breytingar á skipulagsáætlunum án þess að þurfa þá um leið að bæta lóðarhöfum, vel að merkja í mörgum tilfellum er einfaldlega um leigulóðarréttindi að ræða, einhverjar ímyndaðar byggingar í framtíðinni á einhverjum fermetrum sem heimildir voru veittar fyrir fyrir langa löngu, hefur auðvitað komið í veg fyrir að skipulag hafi fengið að þróast eðlilega í mörgum tilfellum og að menn hafi beinlínis treyst sér til þess að leiðrétta skipulagsmistök.

Ég er ekki að tala um að það eigi ekki að bæta mönnum þegar gengið er á eignarrétt þeirra. Auðvitað á að bæta mönnum það og auðvitað á að bæta mönnum ef eignir sem þeir eiga skerðast með einhverjum hætti vegna skipulagsframkvæmda, markaðsverð lækkar eða eitthvað slíkt. En að á einhverju tímabili sé gert ráð fyrir því að mögulegt sé að byggja einhverja ákveðna fermetra, þeir séu síðan aldrei byggðir og svo þegar horfið er frá því að hafa þessa heimild áfram þurfi að borga þeim sem byggði aldrei á þessum fermetrum og nýtti aldrei þessa heimild einhverjar óskaplegar bætur fyrir að breyta skipulagsáætluninni, það finnst mér í raun og veru algjörlega óskiljanlegt. Það er mikilvægt að þessum þætti í skipulagsmálum okkar og bótum vegna breytinga á skipulagsáætlunum verði breytt.

Ég tek til dæmis undir þá tilvísun sem hér hefur verið nefnd í þau sannarlegu mistök sem orðið hafa í skipulags- og byggingarmálum í Reykjavík hvað varðar það háhýsi sem nú er áformað að byggja við neðanverðan Frakkastíg, öndvert við Frakkastíginn þar sem spítalinn stóð á sínum tíma, og mun taka útsýnið af Skólavörðuholtinu og út á sjó. Þó að það gagnist mér ekki mikið nú um stundir þá er ég alinn upp efst við Frakkastíginn, á horni Bergþórugötu og Frakkastígs, og man vel hvernig þessu var háttað. Ég heyri ekki betur en að það séu meira og minna allir sammála um að þetta hafi verið yfirsjón og glappaskot í skipulagsmálum og heimild sem menn hafi í raun og veru aldrei ætlað sér að veita. Auðvitað er eðlilegt, ef leiðrétta á slík mistök, að allur kostnaður sem lóðarhafinn verður fyrir af þeim sökum verði bættur, en að ímyndaður framtíðarhagnaður af einhverjum heimildum sem aldrei hafa verið nýttar þurfi að bæta þannig að gríðarlegum fjárhæðum skiptir tel ég ekki vera í neinu samhengi við annað í þeirri hugsun sem við höfum í löggjöf okkar um skaðabætur og bótarétt almennt. Það er erfitt að sjá að það sé sannanlegt tjón sem þar er verið að gera kröfur til eða sannarleg skerðing á eignarrétti manna. Hér er um að ræða áætlanir og heimildir og ef heimildirnar eru ekki nýttar meðan þær eru í gildi hljóta stjórnvöld að þurfa að geta haft möguleika á því að breyta þeim án þess að fyrir það þurfi að koma gríðarlega háar bætur um einhver ímynduð markaðsverðmæti í framtíðinni, sem eiga satt að segja oft ekki við nein rök að styðjast og eru bara byggð á bóluhagfræði sem er í gangi akkúrat á þeirri stundinni sem þetta á sér stað, eins og við þekkjum um mat á byggingarrétti í Reykjavík á undanförnum árum og einkanlega á árunum fyrir hrun.

Það eru fjölmargir þættir í þessu stóra máli sem ástæða er til að ræða og skoða sérstaklega vel í nefndinni. Hún er ákaflega bagaleg staðan í skipulagsmálum á miðhálendinu sem hér er að einhverju leyti verið að eiga við, en auðvitað er með engum hætti hægt að fylla upp í það tómarúm sem þar er vegna þess að ekki er í gildi í landinu nein landsskipulagsstefna. Við eigum ekki von á henni hingað inn fyrr en árið 2015 og jafnvel síðar. Það er mikilvægt að ná fram breytingum á því sem fyrst og fylla upp í það tómarúm sem er í þeim mikilvæga þætti skipulagsmála sem er miðhálendið.