143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

skipulagslög.

512. mál
[16:54]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir yfirgripsmikla ræðu. Mig langar eiginlega til þess að ræða aðeins við hann um eitt af þeim atriðum sem hann gerði að umtalsefni og varðar eignarrétt eða meintan eignarrétt eða hvernig sem á að orða það.

Það hefur aðeins komið fram í umræðunni hér fyrr að sveitarfélögin lenda oft í þeirri stöðu, ef þau vilja gera breytingar á skipulagsáætlunum sínum, að þá eru talin til staðar einhver réttindi sem einstaklingar eða lögaðilar hafa fengið með skipulagsáætlunum frá fyrri tíð en síðan ekki nýtt sér. Það, eins og hv. þingmaður rakti, getur þess vegna verið langur tími, jafnvel áratugir.

Það sem er áhugavert í þessu efni — af því að frumvarpið hér fjallar um bótaréttinn og í hvaða tilfelli greiða eigi fólki bætur, einstaklingum eða lögaðilum, vegna breytinga á skipulagi — er spurningin um skilgreininguna á eignarréttinum í íslenskri stjórnskipun og ágætt að hv. þingmaður minntist á dóm Hæstaréttar í auðlegðarskattsmálinu. Hvenær er heimild í skipulagsáætlunum orðin eign í skilningi stjórnarskrárinnar? Getur verið að við séum að teygja okkur býsna langt í þeim skilningi og höfum verið að gera það hér á landi um nokkuð langt skeið? Mín tilfinning er sú að við séum, eins og stundum er sagt, kaþólskari en páfinn í þessu efni og að við teygjum okkur býsna langt í því að skilgreina hluti sem lögvarða eign í skilningi stjórnarskrárinnar, þar með talið í þessu tilfelli. Ég vildi heyra þingmanninn (Forseti hringir.) tjá sig aðeins betur um þetta.