143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

skipulagslög.

512. mál
[17:01]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hygg að það vandamál sem við ræðum, ég og hv. þingmaður, hafi verið nokkuð til umfjöllunar í tengslum við þingmál sem hv. þáverandi þingmaður, Mörður Árnason, flutti hér inn í þingið og tengdist svipuðum hlutum. Já, ég held að það sé freistandi að setja tímamörk við þessum deiliskipulagsáætlunum, vegna þess að það er náttúrlega ófært ef um áratugaskeið er ekki hægt að breyta áætlunum um einstök svæði þar sem lóðarhafar á viðkomandi svæði hafa ekki nýtt sér þær heimildir sem skipulagsáætlunin veitti þeim en hafa fært til eignar í bókum einhverja loftkastala. Síðan er aldrei hægt að breyta skipulagsáætluninni sem þannig var að hún var aldrei framkvæmd vegna þess að það þarf að greiða svo miklar bætur fyrir það að það verði ekki framkvæmt sem aldrei var framkvæmt og aldrei stóð til að framkvæma. Þetta er náttúrlega orðin slík endaleysa að löggjafinn þarf með einhverjum hætti að taka á þessum ágalla bara til þess að það megi þróa svæði. Það má ekki gleyma því að það að í gildi séu skipulagsáætlanir sem aldrei verða að veruleika, og menn sitja bara á sínum óbyggðu fermetrum og bíða eftir því að þeir verði að gulli í næstu bólu, veldur náttúrlega skaða fyrir aðra á því svæði sem þurfa að búa við óbyggðar lóðir, ófrágengnar byggingar, ónýttan byggingarrétt og annað eftir því sem sannarlega er ekki til þess fallið að auka verðmæti annarra eigna í viðkomandi hverfi.