143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

skipulagslög.

512. mál
[17:03]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir ágæta ræðu. Þingmaðurinn staldraði töluvert við bótaréttarákvæðin eins og fleiri þingmenn hafa gert hér í dag. Þetta vekur náttúrlega upp vangaveltur og menn hafa verið að velta fyrir sér mörgu í þessu efni. Það er eins og þingmaðurinn kom inn á dálítið sérstakt að menn geti jafnvel átt bótarétt, kröfur eða væntanlegar kröfur út á eitthvert skipulag eða einhverjar áætlanir sem eru ekki til og eiga aldrei að verða til nema bara á pappír, eru aldrei til í raunveruleikanum og eiga aldrei að raungerast. En jafnvel þó að þær ættu að raungerast á einhverjum tímapunkti má kannski velta fyrir sér hvort ætti, eins og kom fram áðan, að hafa einhverja tímafresti á því.

Þingmaðurinn kom örlítið inn á að frestur eða tafir á framkvæmdum hjá einum geti valdið tjóni hjá öðrum. Mig langar aðeins að heyra álit þingmannsins á því annars vegar hvort það eigi fyrst og fremst við um aðra eigendur fasteigna eða aðra eigendur lóðarréttinda þar í kring, eða hvort það geti jafnvel átt við um sveitarfélög eða aðra lögaðila. Og jafnvel að velta því upp hvort það sé hugsanlegt sem réttlæting skulum við segja á því að tímasetja eða hafa fresti í skipulagi, að bótarétturinn geti verið í báðar áttir, þ.e. að sveitarfélag sem væntir kannski tekna eða væntir framkvæmda vegna þess (Forseti hringir.) að einhver aðili fær samþykkt skipulag á allt svæðið, það geti þá átt bótarétt á hann. (Forseti hringir.)