143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

skipulagslög.

512. mál
[17:08]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Þetta er nefnilega dálítið áhugaverð vangavelta þykir mér að hugsa um það að þetta sé tvístefnugata, bótarétturinn getur verið tvístefnugata en ekki bara einstefnugata. Það er kannski leiðin út úr a.m.k. hluta af þeim ógöngum sem menn geta lent í með því að bótarétturinn sé, sérstaklega í skipulagsmálum, aðallega í hag annars aðilans. Það eru til að mynda dæmi um það á höfuðborgarsvæðinu að aðilar, svo að við tölum um aðila eins og hv. þm. Svandís Svavarsdóttir gerði áðan, sem eiga lóðir með kannski tiltölulega lélegum húsum eða húsum sem þeir koma ekki í verð einhverra hluta vegna en vilja halda lóðunum og halda lóðarréttindunum, þeir hafa í sumum tilfellum valið hreinlega að rífa byggingar á þeim lóðum og látið þær standa auðar, og þær verða í rauninni eins og skemmd í borgarskipulaginu, til að losna við að borga gjöld af fasteignunum sínum sem eru á þessum lóðum. Við höfum dæmi um það sunnan úr Kópavogi þar sem menn hafa það á tilfinningunni að slíkt hafi gerst í þó nokkrum tilfellum. Þá veltir maður fyrir sér hvort þingmaðurinn hafi einhverjar hugmyndir um það í hverju varnir sveitarfélaga gætu falist í slíkum tilvikum.