143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

skipulagslög.

512. mál
[17:10]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Alveg eins og ég tel að sveitarfélögin eigi að hafa tiltölulega rúmar heimildir til þess að innkalla deiliskipulagsáætlanir um byggingarrétt sem aldrei hefur verið nýttur tel ég líka að sveitarfélög eigi að hafa býsna rúmar heimildir til þess að innkalla lóðir. Ég ítreka að þetta eru leigulóðir, þetta eru yfirleitt ekki eignarlönd, þetta eru leigulóðir sem lögaðilar hafa frá sínum sveitarfélögum og það eiga að vera miklu ríkari heimildir til þess að innkalla þær aftur og endurúthluta ef ekki er ráðist í þær framkvæmdir sem fyrirhugað var. Lóðum er auðvitað úthlutað til að ráðist sé í framkvæmdir á þeim og farið í ákveðna uppbyggingu og þarf auðvitað að sýna skilning á því að slíkt getur tafist og tekið lengri tíma en ætlað var og gæta þarf meðalhófs gagnvart þeim sem fyrir slíkum framkvæmdum standa, en ef ekkert gerist árum saman tel ég að sveitarfélög eigi að hafa heimildir til innköllunar.

Ég held líka að það sé alvarlegt áhyggjuefni sem þurfi að skoða í meðförum nefndarinnar þegar menn leyfa sér að láta menningarminjar grotna niður, skemmast og eyðileggjast til að geta breytt landinu sem undir þeim er í eitthvert bólubrask, og ljóslega þurfa skipulagsyfirvöld að hafa miklu sterkari úrræði til að beita menn hörðu í þeim efnum og knýja menn til úrbóta meir og betur en nú er gert.