143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

skipulagslög.

512. mál
[17:32]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Lögfræðingar eru almennt klókir við að lesa út úr orðalagi en meira að segja fyrir mig, sem ekki er löglærð, sýnist mér mikill greinarmunur á því hvort þú þarft að gera eitthvað á þinn kostnað eða hvort þú gerir það sjálfur. Þú segir: Nú vil ég láta skipuleggja og vil helst hafa þetta svona. Sveitarfélagið getur þá gert það, eins og hv. þingmaður nefndi, og hefur frumkvæðið, en landeigandinn borgar. Ef þú hins vegar gerir það sjálfur hlýturðu að ráða miklu meiru um hvernig það er. Í tilfellum eins og þessum, ef þetta er lóðareigandi, hefur deiliskipulag á einni lóð þá ekki svolítið smitandi áhrif á aðrar lóðir, hvernig byggist í nálægðinni og svona? Getur ekki deiliskipulag á einni lóð haft smitandi áhrif á umhverfið? Nú spyr ég bara.

Ég vil taka undir það sem mér sýnist svolítið vera að skýrast hér, eða koma skýrar fram í þessari umræðu, að það þarf að setja tímamörk á deiliskipulag þannig að fólk eigi ekki þennan bótarétt um ókomna tíð. Mér fannst hv. þingmaður lýsa því mjög vel hve nauðsynlegt er að koma böndum á það.