143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

skipulagslög.

512. mál
[17:37]
Horfa

Margrét Gauja Magnúsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni fyrir góða yfirferð og góða innsýn í frumvarpið. Ég hef verið að hlusta eftir helstu athugasemdum og tek undir orð hv. þingmanns. Ég vil fá að segja af reynslu minni sem sveitarstjórnarfulltrúi að oft upplifir maður það að mjög fjársterkir aðilar koma til sveitarfélagsins með tilbúið deiliskipulag eða hönnun á húsi, yfirleitt á viðkvæmum svæðum, til dæmis í miðbæ þar sem íbúar hafa sterkar skoðanir á því hvað eigi að koma þar til framtíðar, en það er kannski verið að vinna deiliskipulag og hugmyndir eftir gildandi deiliskipulagi. Tímarnir eru náttúrlega samt sem áður alltaf að breytast og hugmyndirnar með og kröfurnar eru oft aðrar en voru bara fyrir tíu árum, ef ekki fimm árum. Síðan myndast þessi mikli þrýstingur því að oft er það nú þannig að þegar verið er að byggja hús er hönnunarkostnaður oft upp undir 20% af byggingunni. Það eru engir smápeningar sem talað er um að fari í hönnun. Síðan er kannski verið að gera kröfur um að vinna málinu brautargengi, svo þarf það að fara í skuggamyndanir, þrívíddarteikningar og vindrannsóknir og sólstöður.

Ég spyr hv. þingmann: Hvað telur hann að við getum gert til að koma í veg fyrir þetta? Kannski er búið að leggja ofboðslega peninga í vinnuna og það eitt myndar mikinn þrýsting á sveitarstjórnarfulltrúana þegar þeir aðilar koma að borðinu og segja: Heyrðu, ég er búinn að leggja þetta og hitt í þetta. Því er oft erfitt að réttlæta það þegar sagt er: Nei, ég ætla að taka þetta út af borðinu — þegar búið er að eyða tugum milljóna í hönnun.